Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 12. mars 2002 kl. 15:03

Valdabarátta í Vogum

Eins og flestum er kunnugt hefur verið mikill uppgangur í Vogunum undanfarið. Markaðssetningin, sem farið var út í hefur skilað mjög góðum árangri. Hreppurinn hefur varla haft undan við að úthluta lóðum. Mesta fólksfjölgun á Suðurnesjum var í Vogunum, auk þess sem Vogarnir voru í 3 sæti á landsvísu yfir hlutfallslega mesta fjölgun íbúa. Þetta má þakka framsæknu fólki H listans í Vogum undir forystu Þóru Bragadóttur oddvita. Þóra hefur sýnt það á þessu kjörtímabili að hún er skeleggur leiðtogi sem þorir að taka áhættu. Þóra er mikil framkvæmda kona í góðum tengslum við íbúana. Hún er alþýðuleg, laus við hroka og valdafíkn. Nú ber hins vegar svo undarlega við að þegar fiskast vel í Vogunum þá brýst fram á völlinn afbrýðissamur hópur manna, undir forystu Jóns Gunnarssonar fyrrverandi oddvita og vill taka völdin. Það eru fáheyrð, ef ekki einstök, tíðindi að fyrrverandi oddviti skuli bjóða sig fram í prófkjöri gegn sitjandi oddvita. Einnig er það enn undarlegra að mínu viti að þetta skuli gerast á tímum mikils uppgangs í sveitarfélaginu. Í mínum huga er enginn vafi hvernig í pottinn er búið í þessari mjög svo undarlegu framkomu Jóns Gunnarssonar. Þetta er valdabarátta á hæsta stigi. Hér hefur valdafíknin náð heljartökum á mönnum. Þegar vel gengur vilja allir Lilju kveðið hafa. Jón hefur marglýst því yfir áður að hann sé hættur afskiptum af sveitastjórnarmálum. Þess vegna kom tilkynning hans um framboð í 1. sæti í prófkjörinu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það skyldi þó aldrei vera að stefnt væri á sveitarstjórastólinn? Ekki er allt sem sýnist í þessum efnum.
Sl. sunnudagskvöld var haldinn fjörugur framboðsfundur í Glaðheimum. Ræðu Jóns Gunnarssonar var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Hvers vegna var maðurinn að koma aftur? Því miður var fátt um svör hjá Jóni. Jú, hann talaði um að oddvitinn hafi látið malbika eitthvað meira en hann átti að gera. Á að víkja mönnum frá fyrir að hafa metnað í því að gera götur akfærar? Svo tíundaði Jón að hann sæti í stjórn Hitaveitunnar. Þar eru störf hans vægast sagt umdeild. Í landamálum hefur hann t.a.m. gengið erinda Hitaveitunnar ekki landeigenda, sem eru jú íbúar og kjósendur um leið, og þegið háar fjárhæðir fyrir. Í mínum huga var ræða Jóns tómt malbilk.
Mesta athygli á framboðsfundinum vakti hins vegar nýr frambjóðandi, Birgir Þórarinsson, frá Knarrarnesi, sem býður sig fram í 2. sætið. Birgir fór hreinlega á kostum. Þar er á ferðinni vel menntaður maður með stórar hugmyndir um Vogana. Önnur eins þrumuræða hefur ekki heyrst í Glaðheimum um árabil. Birgi styð ég heils hugar og fagna því að hann vilji leggja fram krafta sína í þágu sveitarfélagsins. Ekki er sjálfgefið að hæft fólk vilji gefa sig að þessum störfum.
Að lokum vil ég hvetja alla íbúa í Vogum að taka þátt í prófkjöri H- listans nk. laugardag, 16. mars. Kosið verður í Lionshúsinu frá kl. 15-19. Tryggjum Þóru Bragadóttur oddvita glæsilega kosningu í 1. sætið. Með því sýnum við uppgangi Vogana stuðning í verki. Þakka ber það sem vel er gert.

Með vinsemd og virðingu
Halldóra M. Baldursdóttir
Hvammsdal 2. Vogum
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024