Vaknað af Þyrnirósarsvefni
Það hefur verið merkilegt að fylgjast með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað vegna kaupa Magma Energy á hlut Geysis Green Energy í HS Orku þar sem einstaka þingmenn VG hafa gengið svo langt að tengja stuðning sinn í ríkstjórnina við lyktir þess.
Ríkið seldi árið 2007
Eitt af síðustu verkum Árna Mathiesen var að ákveða sölu á 15% hlut í HS f.h ríkisstjórnar og að opinberum aðilum yrði meinað að kaupa. Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fögnuðu þessu og létu bóka í júlí 2007 að: „Samkomulagið tryggir jafnframt fyrstu skref í einkavæðingu orkufyrirtækja á Íslandi þar sem kraftar einkaframtaksins verða virkjaðir á sviði orkuframleiðslu og sölu, með tilkomu GGE, sem hluthafa í HS.”
A - listinn, minnihlutinn í bæjarstjórn, lagðist strax gegn þessu og lét bóka að: „Suðurnesjamenn verða notaðir sem tilraunadýr við einkavæðingu orkufyrirtækja, án þess að þeir hafi verið um það spurðir eða að gerð hafi verið tilraun til að ræða um með hvaða hætti þessi einkavæðing eigi að fara fram. Bæjarstjórnir sveitarfélaganna hér á Suðurnesjum hafa algjörlega brugðist í þessu máli og hafa tekið skammtímasjónarmið fram yfir framtíðarhagsmuni íbúanna.“
Ég minnist þess ekki að hafa fengið mikinn liðsauka frá þeim sem nú láta hátt til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta.
Hitaveita Suðurnesja skiptimynnt í REI málinu
Þegar að steypa átti HS inn í REI sagði ég í viðtali við Víkurfréttir 3. október 2007 að „fréttir dagsins færa okkur sönnur á að Reykjanesbær með Árna Sigfússon bæjarstjóra í broddi fylkingar var eingöngu leiksoppur fjármálajöfra í þeirri ætlan sinni að leggja undir sig HS.“ Við sama tilefni sagði bæjarstjórinn að: „Við munum á næstunni kynna í Reykjanesbæ þau verkefni sem við erum að semja um við hið nýstofnaða og sameinaða fyrirtæki og það verða mjög jákvæð tíðindi.“
Höfðu menn áhyggjur af þessu? Ég man ekki eftir því.
Orkulög mistök?
Núgildandi orkulög eru að minni hyggju ófullnægjandi og duga hvorki til þess að að hafa áhrif á eignarhald orkufyrirtækja né heldur til þess að stjórna lengd þeirra um nýtingarrétt . Hafa þeir sem sitja nú láta hátt hafi séð ástæðu til þess að breyta þessu?
HS orka seld einkaaðilum 2009
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbær ákváðu í júlí 2009 að selja HS Orku til GGE og mætti það harðri andstöðu minnihluta bæjarstjórnar. Bókaði hann m.a um nýtingarrétt náttúruauðlinda, kúlulánið, um trúverðugleika GGE sem kaupandanda og fl. og fl. Vegna ákvæða um forkaupsrétt var hægt að koma í veg fyrir að GGE eignaðist þennan hlut. Fyrir því reyndist ekki vilji, þrátt fyrir fulla vitneskju þeirra sem nú hafa hátt.
Í ágúst 2009 var boðað til samstöðufundar í Grindavík vegna þess að fyrirséð var að GGE var ekki hugað líf og möguleiki að skapast fyrir ríkið að leysa til sín hlutinn í gegnum skilanefndirnar. Á fundi með fjármálaráðherra sem haldinn var í framhaldinu var gefið vilyrði um að skoða leiðir til þess að koma veg fyrir að Magma Energy eignaðist þennan hlut. Ráðherra tók það hins vegar fram á þessum fundi að ríkið hefði ekki burði til þess að leysa þetta til sín vegna veikrar stöðu ríkissjóðs.
Vaknað of seint
Það fór svo að Magma keypti hlutinn. Ýmsir gátu komið í veg fyrir það en gerðu það ekki. Þetta mál er ekki nýtt heldur hófst það árið 2006 þegar ríkistjórn Íslands og meðreiðasveinar þeirra ákváðu einkavæðingu orkufyrirtækja með sölu á HS. Ég velti fyrir mér tilgangi þeirra sem eru tilbúnir til þess að leggja ríkistjórn Ísland að veði til þess að koma í veg fyrir orðinn hlut. Hlut sem þeir sjálfir hafa haft möguleika á að stöðva um lengri tíð. Það er auðvitað gott að menn vakni en verra þegar menn vakna allt of seint.
Guðbrandur Einarsson,
fyrrverandi bæjarfulltrúi
í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.