Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

V fyrir velferð
Föstudagur 4. maí 2007 kl. 09:31

V fyrir velferð

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á að efla velferðarkerfið og tryggja með því öfluga velferðarþjónustu í þágu allra landsmanna. Réttlátt samfélag byggist á öflugri velferðarstefnu sem tryggir rétt fólks til mannsæmandi lífskjara, félagslegra réttinda og mannlegrar reisnar.


Í komandi kosningum verður kosið um framtíð velferðarþjóðfélags á Íslandi. Í ljós hefur komið að meginþorri Íslendinga vill öflugt velferðarkerfi sem rekið er af hinu opinbera. Áherslur VG eru því í takt við áherslur þjóðarinnar. Við viljum forgangsraða í þágu veikra og fátækra, í þágu velferðar fyrir alla óháð efnahag. Gott heilbrigðiskerfi byggt á hugmyndinni um að allir hafi sama rétt á þjónustu er eitt af grundvallaratriðunum í góðu velferðarkerfi. Efla þarf heilbrigðisþjónustuna um land allt með það í huga að allir landsmenn þurfa á henni að halda óháð því hvar þeir búa og eiga því að sitja við sama borð hvað grunnþjónustu varðar.


Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur aukist á undanförnum árum, það hafa verið innleiddir „sjúklingaskattar“. Þessir skattar leggjast þyngst á fólk sem hefur minnst milli handanna og eru til þess gerðir að auka misskiptingu í samfélaginu. Rök eins og það að einkarekin heilbrigðisþjónusta sé hagkvæmari, bæði hvað varðar gæði og kosntað eru ekki haldbær. Rannsóknir benda til þess að þetta standist ekki. Þær benda til þess að einkarekinni heilbrigðisþjónsutu fylgi aukinn kostnaður og félagsleg mismun. Það sýna líka dæmi frá Bandaríkjunum og öðrum löndum þar sem heilbrigðiskerfið hefur verið einkavætt. Þess vegna höfnum við markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar.


Árið 1980 greiddu sjúklingar rúm 11,5% af heilbrigðisþjónustunni úr eigin vasa. Árið 2005 var hún orðin 17.5%. Þetta þýðir að gjöld sjúklinga voru 5,5 milljörðum hærri árið 2005 á sama verðlagi miðað við sama hlutfall árið 1980. Læknar og heilbrigðisstarfsfólk hefur bent á að þessi gjaldtaka verði til þess að efnalítið fólk sæki sér síður þjónustu.


Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill endurskoða alla gjaldtöku og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar með það í huga að draga úr henni og aflétta með öllu gjaldtöku á tekjulitlu fólki. Við viljum fella niður komugjöld á heilsugæslu og veita öllum börnum undir 20 ára aldri gjaldfrjálsa tannvernd og tannviðgerðir. Einnig telur VG mikilvægt að koma á skólatannlækningum á nýjan leik. Mikilvægt er að tannheilsa verði hluti af almennri heilsuvernd í skólum landsins. Almennar tannviðgerðir og tannhreinsun aldraðra og öryrkja ber líka að verða viðurkenndur hluti heilbrigðisþjónustunnar. Efla þarf forvarnir í heilbrigðisþjónustu en þar geta sparast miklar upphæðir til framtíðar ásamt því að markmiðið sé að bæta heilsu fólks almennt.


Margir aldraðir búa í dag við mjög erfiðar aðstæður og er því afar mikilvægt að styrkja þjónustu við aldraða sem vilja búa á eigin heimili. Einnig er mikilvægt að aldraðir sem og aðrir landsmenn hafi möguleika á að velja sér búsetu eftir eigin þörfum og óskum. Við eigum að stuðla að þátttöku allra í samfélaginu á jafnréttisforsendum. Sköpum samfélag þar sem allir geta lifað með reisn alla ævi.


Alma Lísa Jóhannsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024