Útstrikanir og breytingar flestar á lista Sjálfstæðisflokksins
Flestar útstrikanir og breytingar á framboðslistum í Suðurkjördæmi voru gerðar á lista Sjálfstæðisflokksins eða 333 talsins. Guðjón Hjörleifsson var strikaður 124 sinnum út, en hann skipar 3. sætið á lista flokksins. Drífa Hjartardóttir í 2. sæti var strikuð út 119 sinnum og Árni Ragnar Árnason sem skipar 1. sæti listans hlaut 85 útstrikanir.Á lista Samfylkingarinnar voru 147 útstrikanir og breytingar. Lúðvík Bergvinsson sem skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar var strikaður út 73 sinnum. Listi Framsóknarflokksins hlaut 109 útstrikanir og var Ísólfur Gylfi Pálmason sem skipar 3. sæti listans strikaður út 50 sinnum og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hlaut 26 útstrikanir.