Útspark: Hætt á toppnum
Það getur verið erfitt að hætta einhverju sem er skemmtilegt. Einhverju sem þú hefur stundað í 20-30 ár. Ef þú spilar íþróttir í efstu deild hér á landi eða hvar sem er í heiminum svo sem, þá leggur þú mikinn tíma í það. Þú æfir flesta daga vikunnar eða spilar leik, nánast allann ársins hring. Þú hittir liðsfélagana meira heldur en fjölskylduna þína. Menn fara í vinnuna eða skólann, þaðan á æfingu og svo er komið heim, bara til að gúffa í sig kvöldmat og koma krökkunum í háttinn. Liðsfélagar skiptast á sögum í klefanum. Fara svo út og hlaupa saman í rigningunni, tækla hvorn annan og faðmast ef einhver skorar. Svo er farið saman í sturtu eftir þetta allt saman. Þetta verður ansi náið samband oft á tíðum. Þetta verður ekki bara hluti af lífi manns heldur er þetta lífið manns. Íþróttin verður hluti af persónuleika þess sem stundar hana.
Þegar ég fór í uppskurð vegna meiðsla á öxl þá missti ég nánast af heilu fótboltasumri. Þá var ég 28 ára og ég og konan mín áttum von á okkar öðru barni. Það sumar ferðaðist ég um landið í fyrsta sinn á ævinni í sumarfríinu mínu. Í fyrsta sinn ótengt fótbolta það er að segja. Ég ætti auðveldara með að finna fótboltavöllinn á Siglufirði en Gullfoss. Þá tel ég ekki með verslunarmannahelgina sem við fáum oftast frí frá boltanum heila helgi takk fyrir! Hef farið í einhver minna gáfuleg ferðalög þá helgi sem þarf ekki að skrifa um. Þetta á alls ekki að vera neitt væl, heldur bara dæmi um tíma sem fer í íþróttir hjá fólki. Ég man þegar ég var í grunnskóla. Þá voru krakkar sem æfðu sund búin með eina æfingu áður en þau mættu í skólann. Mér þótti það afrek að vakna í skólann. Þetta leggja sundmenn á sig sem vilja ná árangri og margt fleira.
Það getur verið ansi erfitt að hætta einhverju sem hefur verið svona stór hluti af lífi þínu í svo mörg ár. Ég skil vel að mörgum tekst ekki að hætta í fyrstu tilraun. Það getur verið meira en að segja það að fylla upp í það tómarúm sem íþróttin skilur eftir sig. Það er ekki að ástæðulausu sem að mikið er fjallað um þunglyndi hjá fyrrverandi knattspyrnumönum á Englandi þessa dagana. Oft er talað um að menn eigi að hætta á toppnum. Það er kannski það vitlausasta sem ég hef heyrt. Hverjum dettur í hug að hætta einhverju þegar það er sem skemmtilegast? Spurning að Lionel Messi fari að segja þetta gott 24 ára gamall. Unnið allt sem hann getur með félagsliðinu sínu og var valinn besti leikmaður heims í þriðja sinn um daginn, toppiði það! Hvernig veistu hvenær þú ert á toppnum annars? Ekki margir sem sjá inn í framtíðina. Back to the future var ekki sannsöguleg mynd, því miður.
Ég er ekki farinn að sjá fyrir endann á mínum ferli ennþá, þó að ég hafi skemmt mér vel í mínu eina sumarfríi hingað til. Sem betur fer eru líka leikmenn sem hætta við að hætta eftir að hafa hætt of snemma (prufið að segja þetta 5 sinnum hratt). Fátt skemmtilegra en að sjá góðan leikmann koma með vel heppnað “comeback”. Nú ef það verður ekki jafn vel lukkað og ætlunin var þá veit maður í það minnsta að það ver rétt ákvörðun að hætta. Í versta falli þá hittirðu gömlu félagana aftur og kemst með þeim í sturtu.
Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.