Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Útspark: Eru svona margir útlenskir leikmenn vænlegasta leiðin?
Þriðjudagur 28. febrúar 2012 kl. 10:41

Útspark: Eru svona margir útlenskir leikmenn vænlegasta leiðin?

Þegar ég var lítill strákur fór ég reglulega á völlinn eins og fótboltasjúkum drengjum ber að gera. Þarna horfði maður á leikmenn spila og óskaði þess að maður væri þeir. Ólarnir Gottskálksson og Pétursson voru í sérstöku uppáhaldi hjá markmanninum mér. Eftir leik var svo fundinn grasblettur þar sem úlpurnar voru notaðar sem mörk. Snúrustaurar ef maður var heppinn. Á þessum grasbletti breyttist maður svo í þessa leikmenn. Maður var þeir í smá stund og lifði drauminn. Seinna þegar maður varð nokkrum árum eldri breyttust svo draumarnir úr því að vera þeir yfir í að fá að spila með þeim. Maður sá unga leikmenn koma inn í liðið og áttaði sig á því að það væri möguleiki, ef maður legði hart að sér, að hugsanlega spila með þeim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðasta helgi var frábær körfuboltahelgi hér í Reykjanesbæ. Það er á svona dögum sem frasinn „aðalmálið að vera með“ á ekki við. Það einmitt fyrir svona augnablik sem flestir íþróttamenn leggja af stað með ferilinn sinn. Ungir drengir og stúlkur mæta í íþróttahúsið og drekka í sig stemninguna. Þarna sitja þau, standa, hoppa, syngja og hrópa og á endanum eru sigurvegararnir hylltir sem hetjur. Hver vill ekki vera hetja og taka þátt í því að gleðja svona marga. Vera dáður og vinsæll fyrir eitthvað sem þú ert virkilega góður í. Ég er alveg viss um að fleiri en einn og tveir hafi ákveðið að nákvæmlega þetta vildu þau gera þegar þau verða stór. Vera góð í körfubolta og vinna titla.

Nú er ég Keflvíkingur og elska að sjá Keflavík vinna titla, mér fannst það meira að segja alls ekkert leiðinlegt að sjá Njarðvík vinna. Einn hlutur stakk mig samt svolítið í augun um helgina. Hversu hvetjandi er það fyrir unga krakka að stefna að því að komast í liðið í framtíðinni þegar 3 af 5 byrjunarliðsmönnum eru erlendir leikmenn? Ég leyfi mér að fullyrða það að enginn af þeim hafði heyrt á Keflavík minnst áður en þeir fengu samning hér. Af 10 leikmönnum inná í byrjun leiks voru 6 erlendir og spiluðu þeir flestir nánast hverja einustu mínútu. Hjá konunum voru erlendu leikmennirnir ekki nema 4 af 10, 2 í hvoru liði. Þessar stelpur skoruðu samt sem áður 113 af 161 stigi sem voru skoruð í leiknum. Það er eitthvað bogið við það að 1 af 20 stigahæstu leikmönnum Iceland Express deildarinnar í karlaflokki sé Íslendingur (Maggi Gunn að sjálfsögðu).

Nú eru flestir af þeim erlendu leikmönnum sem koma hingað til að spila virkilega góðir leikmenn og styrkja liðin sín mikið. Ég hef nákvæmlega ekkert út á þá að setja, þau eru bara að vinna vinnuna sína. Það sem ég hins vegar velti fyrir mér er hvort að þetta sé vænlegasta leiðin til árangurs fyrir körfuboltann í landinu. Á meirihlutinn af byrjunarliðinu að vera atvinnumenn? Er ekki til neitt betra fyrir liðin að leggja peningana í? Til hverra á æskan að horfa upp til þegar flestir af þeim sem spila stærsta hlutverkið í sínu liði spila ekki nema eitt tímabil, ef þeir þá ná því. Auðvitað er það vonlaus barátta ef lið ætlar ekki að hafa erlenda leikmenn í efstu deild eins og staðan er í dag. Kannski er ég bara orðinn gamall og bitur en mér finnst ekki sami ljóminn yfir körfunni í dag og fyrir 20 árum. Þegar einn erlendur leikmaður var í hverju liði og strákar sem fólkið í bænum þekkti spiluðu stærra hlutverk. En jú ætli ég sé ekki bara að verða gamall.

Ómar Jóhannsson.