Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 9. júní 2004 kl. 21:02

Útlitið svart í fjármálum Reykjanesbæjar

Á bæjarstjórnarfundi þ. 1. júní sl. var ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2003 afgreiddur. Á árinu á undan, 2002, var í fyrsta skipti beitt nýrri aðferð við uppgjör reiknisskila og því er ársreikningur ársins 2003 annar í röð reikninga bæjarins sem gerðir eru upp með þessu nýja fyrirkomulagi. Það þýðir að nú geta menn farið að bera saman uppgjör á milli ára og sjá hvert stefnir í fjármálum bæjarins. Til þess að gera langa sögu stutta er útlitið svart í fjármálum Reykjanesbæjar.

866 milljón króna halli
Bæjarsjóður var á árinu 2003 rekinn með 866 milljón króna halla. Tekjur hans voru tæpir 3,2 milljarðar og gjöld um 4 milljarðar. Til samanburðar var rekstrarhalli bæjarsjóðs á árinu 2002 ,,aðeins“ 300 milljónir. Rekstrarhallinn hefur því aukist um 560 milljónir á milli ára. Þessi halli hefur verið fjármagnaður með söluhagnaði þeirra fasteigna sem seldar hafa verið en það er ekki hægt að gera til lengdar svo ljóst er að ef ekki á illa að fara verður heldur betur að taka hressilega á málum.

Eigið fé lækkar
Eigið fé segir til um hreina eign Reykjanesbæjar að teknu tilliti til skulda. Samkvæmt ársreikningnum lækkar þessi hreina eign bæjarins um 70 milljónir á milli ára sem þýðir að eignir eru að minnka hraðar en skuldir. Á árinu 2002 var hrein eign Reykjanesbæjar og skyldra fyrirtækja rúmir 3,8 milljarðar en á árinu 2003 hefur hrein eign lækkað í rúma 3,7 milljarða.

Eyðsla umfram heimildir
Upphafleg fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 gerði ráð fyrir 3 milljón króna rekstrarhalla. Þegar ljóst var að sú áætlun mundi ekki standast var áætlunin endurskoðuð í október og eftir þá vinnu gerði áætlunin ráð fyrir 627 milljón króna halla. Endanleg niðurstaða varð hins vegar enn verri eða 866 milljón króna halli eða vel á þriðja hundruð milljón krónur umfram heimildir í samþykktri fjárhagsáætlun, sem er alvarlegt mál. Endurskoðandi bæjarins sá m.a. ástæðu til þess að skrifa sérstaka athugasemd um þetta í ársreikninginn þar sem hann minnti á að ekki væri heimilt að fara fram úr samþykktum fjárveitingum.

Lokaorð
Það er alveg sama hversu vongóðir menn eru um betri tíð og blóm í haga, menn verða að taka tillit til raunveruleikans eins og hann er á hverjum tíma. Staða fjármála Reykjanesbæjar þessa stundina er mjög slæm og með sama áframhaldi er útlitið enn svartara. Rekstur bæjarsjóðs er ekki lottó þar sem menn treysta á að stóri vinningurinn falli mönnum í skaut einhvern næstu laugardaga. Rekstur bæjarsjóðs er háalvarlegt mál og nú verða menn að koma niður á jörðina og horfast í augu við sífellt versnandi stöðu.

Með vinsemd og virðingu

Kjartan Már Kjartansson,
bæjarfulltrúi
Framsóknarflokksins
í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024