Aðsent

Útlendingastofnun til Suðurnesja
Föstudagur 10. september 2021 kl. 15:31

Útlendingastofnun til Suðurnesja

Atvinnumálin á Suðurnesjum eiga að vera í brennidepli fyrir Alþingiskosningarnar 25. september n.k. Í veirufaraldinum kom berlega í ljós að atvinnulífið á svæðinu er of einsleitt. Rannsóknir hafa sýnt að á uppgangstímum getur það orðið raunin. Fjölmargir á Suðurnesjum starfa við flugið og ferðaþjónustuna. Þegar hrun varð í greininni varð skellurinn meiri og stærri en víðast hvar annars staðar á landinu. Það er því mikilvægt að horfa til fleiri þátta en ferðaþjónustunnar þegar kemur að atvinnuuppbyggingu og fjölgun starfa á svæðinu. Forðast ber að horfa í sama farið þar sem ein atvinnugrein er ríkjandi. Styðja þarf vel við fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfs.

Á Ásbrú eru dæmi um vel heppnuð nýsköpunarverkefni sem hafa skilað fjölgun starfa. Það er gott og vel að ríkið setji peninga í nýsköpun en hafa ber í huga að þolinmæði er dyggð þegar kemur að frumkvöðlum og nýsköpun. Störfin skila sér ekki strax.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Lítið hefur verið rætt um það af hálfu stjórnvalda að flytja opinber störf til Suðurnesja. Jafnvel þó svo að þau ættu í raun heima á Suðurnesjum. Útlendingastofnun er að mínum dómi stofnun sem ætti að hafa aðsetur í Reykjanesbæ. Íbúar með erlent ríkisfang eru fjölmargir í Reykjanesbæ og um Keflavíkurflugvöll fara þeir sem óska eftir hæli hér á landi. Hjá Útlendingastofnun starfa 86 starfsmenn. Miðflokkurinn leggur áherslu á að stofnunin verði flutt í Reykjanesbæ.

Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður og oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.