Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Úti er ævintýri – af nauðungarsamingum sjálfstæðismanna við kröfuhafa
Miðvikudagur 6. febrúar 2013 kl. 17:57

Úti er ævintýri – af nauðungarsamingum sjálfstæðismanna við kröfuhafa

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykktu á þriðjudag nauðungarsaminga við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF) og staðfestu þar með endanlega algjört skipbrot hugmyndafræðinnar sem ráðið hefur rekstri þeirra á bænum okkar undanfarin 11 ár.

Það hefur legið ljóst fyrir í tvö ár að EFF var orðið tæknilega gjaldþrota. Fara þurfti í nauðungarsaminga við kröfuhafa félagsins – eini annar valkosturinn var gjaldþrot -  og nú liggur niðurstaðan fyrir.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

EFF verður áfram til en aðeins sem beinagrind án starfsmanns en með þriggja manna stjórn sem hefur það hlutverk að halda utan um leigusamninga og lán eignanna sem enn eru eftir í félaginu. Kröfuhafarnir gerðu það að skilyrði að stjórn félagsins yrðu skipuð fulltrúum ótengdum sveitarfélögunum – sem ber með sér að kröfuhafarnir treysta ekki bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ. Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ skipuðu fulltrúa í stjórn félagsins. Þessi fulltrúi situr ekki í umboði bæjarráðs eða bæjarstjórnar Reykjanesbæjar heldur í umboði sjálfstæðismanna. Þetta umboðsleysi vekur áhyggjur – orðin fé án hirðis leita á hugann.

Nauðungarsamningarnir grundvallast á nýjum lánasamningum sem skuldbinda bæinn okkar til ársins 2040 en fyrri leigusamningar náðu til ársins 2033. Um er að ræða verðtryggð lán í íslenskum krónum – sem ætti að vekja hverjum manni hroll.

Reykjanesbær á 54% hlut í EFF. Í nauðungarsamningunum eru hagstæð uppkaupsákvæði fyrstu árin en mjög ólíklegt er að við getum nýtt okkur þau vegna bágrar stöðu bæjarins. Ólíkt Sandgerðingum sem ætla að nýta sér uppkaupaákvæðin sem fyrst og stefna að því að kaupa til baka helming eigna sinna.

Samkvæmt nauðungarsamingunum tapar Reykjanesbær 1300 milljónum í hlutafé sem greiddar voru á sínum tíma í beinhörðum peningum og tekur á sig allavega um 100 milljónir af skuldum Álftaness. Í nauðungarsamningum Álftaness voru skuldir skildar eftir í EFF og þetta er okkar hluti

Verið er að ýta kostnaði inn á næsta kjörtímabil. Þannig senda sjálfstæðismenn kostnaðinn inn í framtíðina til þess að auðvelda sér rekstur bæjarins út kjörtímabilið og gera eitthvað svona smart í lokin. Kannski klára Stapann?  Minnismerki Fasteignarævintýrisins sem kostar okkur 100 milljónir á ári.

Allt tal um mikla lækkun á leigugreiðslum er skrumskæling á staðreyndum. Reykjanesbær tekur á sig allt viðhald utan sem innan á eignunum sem gerir það að verkum að heildarkostnaðurinn verður rúmlega milljarður á ári frá árinu 2015. Nema að kostnaðurinn aukist enn meira vegna verðtryggðra lána?

Nauðungarsamningarnir eru bein ávísun á þröng kjör bæjarins til langrar framtíðar og gerðir fyrst og fremst á forsendum lánadrottna Eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Þeitr taka mið af hagsmunum meirihluta sjálfstæðismanna en ekki íbúa Reykjanesbæjar. Þetta eru nauðungarsamingar sjálfstæðismanna við kröfuhafa – og á þeirra ábyrgð.

Eysteinn Eyjólfson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ