Útgarðar
Sameiningarheiti á sameiginlegt sveitarfélag Garðs og Sandgerðis
Ég er einn af þeim sem hefur haft nokkuð sterkar skoðanir á sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Af hverju ætla ég ekki að tíunda hér í þessum pistli, þar sem það hefur ekkert að segja hvort sem er. Það er búið og gert. En mér þykir samt sem áður vænt um Sandgerði og það er ekki út af neinum deilum við þá. Ég var mikið í Sandgerði sem krakki og saga þessa sjávarþorps er mjög merkileg, eins og Garðs.
Ég vona þó að ég hafi rangt fyrir mér varðandi sameiningu og að þetta verði til góðs fyrir okkur og aðra íbúa í komandi framtíð. En ég er Garðmaður og verð það alltaf, því verður ekki breytt.
Í vor var haldin kosning um heiti á nýja sameiginlega sveitarfélagið. Ég kaus ekki (eins og margir aðrir) vegna þess að nöfnin sem voru í boði voru lítt spennandi og þetta viðskeyti byggð og bær fór ekki vel í mig, eins og hjá mörgum öðrum.
Sameiningarheitið Heiðarbyggð fékk flest atkvæði, en vegna dræmrar þátttöku í kosningum (þar sem margir skiluðu auðu eða helmingur atkvæða) var ákveðið að endurskoða nafnagiftina.
Íbúar Garðs og Sandgerðis geta kosið á ný þann 3. nóvember 2018, eins og kom fram í fundargerð bæjarráðs.
Mér finnst mjög mikilvægt að í heitinu felist skírskotun í sögu sveitarfélaganna og eitthvað sem tengir þessi tvö sveitarfélög saman.
Það sem er hvað mest áberandi og einkennandi fyrir bæði þessi sveitarfélög eru grjótgarðarnir. Þeir voru frá upphafi byggðar afgerandi hluti ásyndar umhverfis og eina tiltæka efnið til að verja tún og garða.
Sagt er í heimildum að í Garðinum hafi grjótgarðar náð samanlagt um 60 kílómetra lengd!
Svo auðvitað Skagagarðurinn mikli sem lá frá Útskálum í Garði að Kirkjubóli í Sandgerði, sem er rúmlega tveggja kílómetra leið. Skagagarðurinn er með merkustu fornminjum á Íslandi, sem við þurfum að halda betur á lofti. Tilgangurinn með mannvirkinu er talinn hafa verið til að verja akurlöndin fyrir búfé, sér í lagi kindum, en akuryrkja var tíð á Garðskaga. Skagagarðurinn hefur líklega verið reistur á 10. öld og það mótar fyrir honum enn í dag.
Þetta eigum við Garðmenn og Sandgerðingar sameiginlega sem tengir bæjarfélögin saman.
Núna í vor urðum við þess heiðurs aðnjótandi að einn virtasti og afkastamesti rithöfundur þjóðarinnar, Gyrðir Elíasson, flutti í Garðinn. Gyrðir hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir bók sína Milli trjánna. Þess má þá til gamans geta að hann kláraði nýjustu skáldsögu sína, Sorgarmarsinn, í Garðinum, sem að mínu mati er ein af hans bestu bókum. Hún hefur einstakan sjarma og er mjög vönduð eins og öll hans verk.
Gyrðir sendi mér nýlega hugmynd að heiti á nýja sveitarfélagið, sem mér finnst koma fyllilega til greina og er sennilega besta tillaga sem ég hef heyrt hingað til.
Ég held að Gyrðir hafi hitt naglann beint á höfuðið.
Vona að sem flestir séu sammála.
Útgarðar
Virðingarfyllst,
Guðmundur Magnússon