Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Út fyrir þægindarammann
Þriðjudagur 25. júlí 2017 kl. 05:00

Út fyrir þægindarammann

Áramótin 2015-6 langaði mig til að prufa eitthvað nýtt. Ég hafði síðustu tvö ár tekið að mér á vegum LIONS að fá stelpu sem var á mínu heimili í viku senn og átti einungis jákvæða reynslu af því. Mér var bent á að fá skiptinema inn á heimilið áramót 2015/16 og eftir smá umhugsun ákvað ég að slá til og sækja um skiptinema á vegum AFS. Umsókninni fylgdi bæði stress, óvissa og spenna og var ég lengi að hugsa hvað ég væri búin að koma mér út í.

Stóri dagurinn rann upp þann 21. ágúst, þá sótti ég Anaelle í Kópavog. Anaelle er 17 ára gömul og kemur frá Frakklandi. Hún hefur mikinn áhuga á körfubolta og hefur gaman að lífinu. Þegar ég hitti hana fyrsta daginn sá ég strax að stressið hafði verið óþarfi, því hamingjan og gleðin geislaði af henni. Anaelle féll strax inn í fjölskylduna og mér leið eins og við höfðum þekkst í mörg ár. Það leið ekki á löngu fyrr en ég áttaði mig á að ég hafði tekið eina bestu ákvörðun lífs míns.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mánuðurnir liðu hratt, Anaelle byrjaði í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum og fór að æfa körfubolta með Njarðvík. Tengslin okkar urðu betri með hverjum deginum og flestir okkar dagar einkenndust af hlátri og gleði. Fyrstu mánuðina gerðum við ýmislegt eins og að fara á körfuboltaleiki, Anaelle fór með barnabörnunum mínum á Justin Bieber tónleika, síðan fórum við í haustferð á Þingvelli, Bláa Lónið og ferð upp í sumarbústað svo eitthvað sé nefnt. Áður en ég vissi af var kominn desember og dvöl Anaelle strax hálfnuð. Mig langaði að gera jólin og áramótin einstök fyrir Anaelle, enda var hún mjög spennt fyrir íslenskum jólum og áramótum. Það var smakkað á skötu og sviðum á Þorláksmessu, með lítilli hrifiningu Anaelle. Hamborgarahryggurinn var þó betri á aðfangadagskvöld en það sem stóð upp úr voru sprengjurnar á gamlárskvöld. Tíminn eftir áramót hefur verið alltof fljótur að líða og ég á erfitt með að trúa því að 10 mánuðir séu liðnir. Þessir mánuðir hafa í för með sér ótal yndislegar minningar sem ég mun ætíð varðveita. Anaelle er einstaklega þakklát og glaðlynd að eðlisfari og hefur kennt okkur að meta þessa litlu einstöku hluti sem við höfum hérna á Íslandi.

Nú er dvöl Anaelle sem skiptinema liðinn og hún farin heim til Frakklands en þau tengsl sem mynduðust munu halda áfram því hún verður alltaf hluti af fjölskyldunni. Þessi stóra ákvörðun sem ég tók  hefur hjálpað bæði mér og henni að læra enn meira um lífið og tilveruna. Ég mæli hiklaust með þessarri reynslu ef fólk hefur áhuga á að stíga út fyrir þægindarammann.

Þórunn Friðriksdóttir,
fósturmamma