Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Út á hvað gengur Heilsuefling á Suðurnesjum
Fimmtudagur 25. janúar 2007 kl. 13:36

Út á hvað gengur Heilsuefling á Suðurnesjum

Heilsuefling á Suðurnesjum hefur farið vel af stað og viðbrögð bæjarbúa verið mjög góð. Starfsmenn Inpro eru í óðaönn að gera heilsufarsmælingar á Suðurnesjamönnum og hópgöngur og fræðslukvöld farin af stað.

Heilsuátakið nær til íbúa á Suðurnesjum, 40 ára og eldri. Meginmarkmið er að skoða hvernig einstaklingur stendur m.t.t áhættuþátta hjarta og æðasjúkdóma, ásamt því að vekja fólk til umhugsunar um eigin heilsu og benda á leiðir til úrbóta til að efla heilbrigði. 

Verð og greiðslufyrirkomulag
Heilsufarsmælingin kostar  3300 krónur. Hjúkrunarfræðingur  athugar blóðþrýsting, púls, kólestról, blóðsykur, líkamsþyngdarstuðul(BMI) og mittismál og veitir viðeigandi ráðgjöf. Allir sem fara í mælingu hjá Inpro fá Hreyfiseðil. 

Einstaklingar  geta pantað tíma í  síma 555 7600 eða
Netfang – [email protected]
Starfsaðstaða er á Hringbraut 99 , efri hæð í húsnæði Lyfju


Fyrirtæki sendi fyrirspurn á [email protected] og hjúkrunarfræðingur hefur samband varðandi tímasetningar til að koma á vinnustaði með heilsufarsmælingar.

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur ásamt Verslunarmannafélagi Suðurnesja hefur gefið vilyrði til að taka þátt í 2/3 hluta kostnaðar fyrir sína félagsmenn sem eru 40 ára og eldri.  Þeir sem ekki eru í þeim stéttarfélögum geta kannað niðurgreiðslu hjá sínum  stéttarfélögum.

Fjölmörg fyrirtæki á Suðurnesjum hafa lýst vilja til þátttöku í átakinu með því að bjóðast til að greiða skoðunargjaldið og getur fyrirtækið þá óskað endurgreiðslu á 2/3 kostnaðar frá ofangreindum stéttarfélögum.  Hjúkrunarfræðingar frá Inpro framkvæma heilsufarsmælingar á vinnustaðnum.  Þeim sem ekki uppfylla skilyrði átaksins m.t.t búsetu, aldurs eða stéttarfélags er velkomið að taka þátt í heilsufarsmælingum gegn sama gjaldi.

Hverjir standa að verkefninu?
Samstarfsaðilar eru Sveitarfélög á suðurnesjum, kjarafélög á suðurnesjum, Hjartaheill, Heilbrigðistofnun Suðurnesja, Fjölbrautarskóli Suðurnesja, Lýðheilsustöð, Inpro, Íþróttaakademían, Glitnir, Líkamsræktarstöðvarnar; Perlan, Lífstíll og Helgasport

Hreyfiseðill
Allir sem koma í mælingu fá í hendurnar Hreyfiseðil og í hann skal skrá niðurstöður mælinganna, markmið fyrir næstu mælingu og hreyfidagbók.
Í Hreyfiseðlinum eru einnig upplýsingar um leiðir að bættri heilsu. Þar má nefna fræðslukvöld, gönguferðir, tilboð á líkamsræktarstöðvum og námskeið.

Fræðslukvöld í Íþróttaakademíunni
Fyrsta og þriðja fimmtudagskvöldið í hverjum mánuði klukkan 19.30-22.00 verða fræðslukvöld í Íþróttaakademíunni. Þar flytja hjúkrunarfræðingur, íþróttafræðingur og næringarfræðingur fróðlega og skemmtilega fyrirlestra með það að markmiði að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og hugsa um hvað það lætur ofaní sig. Einnig er fjallað vandlega um einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og hverju við getum og getum ekki breytt til að draga úr líkum á því að við fáum þá. Fyrsta fræðslukvöldið var haldið s.l. fimmtudag og tókst það mjög vel. Þátttakendur hlustuðu af mikilli athygli og í lokin mynduðust skemmtilegar umræður. Málefnið er fólki greinilega hjartans mál!
Næsta fræðslukvöld verður 1.febrúar og það skal tekið fram að fræðslukvöldin eru alltaf eins þannig að nóg er að koma einu sinni. Þátttaka er ókeypis.

Tilboð í líkamsræktarstöðvum
Gegn framvísun Hreyfiseðils bjóða Perlan, Lífsstíll og Helgasport í Grindavík tilboð á
líkamsræktarkortum og ókeypis leiðsögn í tækjasal. Nánari upplýsingar gefa Sigga í Perlunni, Vikar í Lífsstíl og Helgi í Helgasporti.

Hópganga
Á hverjum miðvikudegi klukkan 17.30 hittist vaskur hópur Suðurnesjamanna og gengur saman í klukkutíma. Gengið er um götur bæjarins í öllu veðri og eru allir velkomnir, óháð líkamsformi. Þátttaka er ókeypis.
Umsjónamenn eru Rannveig Garðarsdóttir (Nanný) og Hildur Harðardóttir.

Langtíma lausn að heilbrigðu lífi
Þann 15.febrúar fer af stað í Íþróttaakademíunni, fjögurra kvölda námskeið sem kallast ,,Langtíma lausn að heilbrigðu lífi”. Þar verður farið mun dýpra í þá þætti sem farið er í á fræðslukvöldinu eins og hvernig eigi að lesa utan á umbúðir matvæla og meta innihald þeirra og auglýsingar, notkun á matarvefnum sem reiknar út næringargildi fæðunnar, alls konar styrktar- og þolæfingar sem þarfnast ekki fullkominnar aðstöðu og má jafnvel gera heima hjá sér eða úti, streitulosandi æfingar og síðast en ekki síst grunnendurlífgun. Allir leiðbeinendur sem koma að námskeiðinu eru fyrsta flokks og algjörir sérfræðingar á sínu sviði.
Það er Glitnir sem niðurgreiðir námskeiðið til Suðurnesjamanna og gefur þannig öllum jafnt tækifæri til að sækja sér aukna fræðslu um bættan lífsstíl. Verðið á námskeiðinu er aðeins 5.000kr fyrir einstaklinga og 7.500kr fyrir hjón og sambúðarfólk.
Skráning á námskeiðið er hafin í síma 420-5500.

Suðurnesjamenn! Setjum heilsuna í forgang. Það er ekki nóg að fá ástandsskoðun á bílinn heldur verðum við að fá ástandsskoðun á okkur sjálf !!

Fyrir hönd heilsueflingar á Suðurnesjum
Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, Íþróttaakademían
Sveinbjörg Ólafsdóttir, Inpro


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024