Úrræði við frjóofnæmi
Þegar veðrið er gott, heitt og þurrt, er mun meira af frjókornum í lofti en á rigningarsumrum.
Frjókorn eru litlar agnir sem berast um loftið með vindinum. Þegar þeim er andað inn, geta þau ert slímhúð í nefi og koki. Ofnæmiseinkenni koma fram eins og hnerri, nefrennsli og kláði í augum.
Einkenni geta verið eins og venjulegt kvef. Augun roðna og bólgna og kláði í nefi og augum. Minnkað lyktarskyn, höfuðverkur og þreyta. Frjóofnæmi getur valdið astmaeinkennum með hósta og andþyngslum.
Frjókorna tímabilið á Íslandi er breytilegt frá ári til árs. Einkenni birkiofnæmis koma fram í maí-júní. Grasfrjó um miðjan júní og ná hámarki seinni hluta í júlí byrjun ágúst mánaðar. Þegar veðrið er gott, heitt og þurrt, er mun meira af frjókornum í lofti en á rigningarsumrum.
Best er, ef að hægt er, að forðast ofnæmisvakann, en það getur verið erfitt. Ráðlagt er að hugsa sérstaklega vel um augu, nef, húð og hár. Gott er að fara oftar í sturtu, því frjókornin festa sig á húð og hár yfir daginn. Við það að fara í sturtu og skola hárið áður en maður leggur sig, minnka líkurnar á óþarfa ertingu af frjókornum yfir nóttina. Gott er að skola nef og augu með saltvatni. Nota sólgleraugu til að vernda augun fyrir frjókornum. Halda sig innandyra þegar frjókornin mælast í hámarki ef kostur er. Þeir sem eru með grasofnæmi ættu ekki að slá blettinn.
Í apótekum eru til lyf í lausasölu við ofnæmi „antihistamín lyf“. Þau eru til inntöku og til staðbundinnar notkunar. Lyfin draga úr kláða og hnerra og þurrka slímhúð. Hægt að taka lyfin eftir þörfum, en þegar einkenni eru mikil er nauðsynlegt að taka þau reglubundið. Mikilvægt er að lesa vel leiðbeiningar með lyfjunum. Lyfin og úrræðin eru nokkuð góð, látum okkur líða vel í frjókornatíð og njótum sumarsins, með gleði í hjarta.
Kveðja
Sigríður Pálína Arnardóttir
Lyfju Reykjanesbæ