Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Úrgangsmál á nýju ári
Föstudagur 20. janúar 2023 kl. 06:13

Úrgangsmál á nýju ári

Nú er árið 2023 gengið í garð með nýjum lögum um meðhöndlun úrgangs. Þessum nýju lögum er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun, draga úr myndun úrgangs og minnka til muna urðun á úrgangi.

Þótt lögin hafi þegar tekið gildi eru fá sveitarfélög tilbúin í breytingarnar. Sveitarfélögin á Suðurnesjum sitja við sama borð og mörg stærri sveitarfélög landsins, að þurfa að bíða eftir innflutningi á ílátum. Þau eru væntanleg í lok vetrar svo enn eru nokkrir mánuðir þar til breytingarnar ganga yfir að fullu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað þýðir þetta fyrir íbúa á Suðurnesjum?

Á hverju heimili verður safnað í fjóra úrgangsflokka:

  • Matarleifar
  • Plastumbúðir
  • Pappír & pappi
  • Blandaður úrgangur

Þrjú ílát verða við sérbýli.

  • Eitt fyrir plastumbúðir
  • Eitt fyrir pappír & pappa
  • Eitt tvískipt ílát þar sem annar hlutinn er fyrir matarleifar og hinn hlutinn fyrir blandaðan úrgang

Hugmyndin er svo að þróa framboð á ílátum áfram og leitast verði við að finna þá samsetningu sem hentar best í hverju tilviki. Áfram verður mögulegt að fá viðbótarílát fyrir þá sem þess óska.

Mismunandi fyrirkomulag við fjölbýli

Í dag eru ýmsar útfærslur á stærðum íláta við fjölbýli og á því verður engin breyting. Reynt verður eftir fremsta megni að aðlaga stærð og tegund íláta eftir aðstæðum á hverjum stað. Ílát fyrir matarleifar verður þó aldrei stærra en 140 lítrar vegna þyngdar þeirra.

Grenndarstöðvar

Málmum, gleri og textíl verður safnaði í grenndarstöðvar  auk þess sem pappír, pappa og plasti, verður safnað á sumum stöðvum. Þannig geta íbúar flokkað málma og gler heima við og skilað á grenndarstöðvar og einnig farið með pappír, pappa og plast ef og þegar ílátin heima fyrir taka ekki lengur við.

Hvenær munu þessar breytingar taka gildi?

Eins og áður hefur komið fram tóku lögin gildi um áramótin en eins og glöggir íbúar hafa vafalaust tekið eftir er ekki komið nýtt ílát fyrir utan heimilin og því hefur þessi nýja söfnun enn ekki hafist. Ástæður fyrir því eru margvíslegar og verða þær ekki taldar upp hér en nú er beðið eftir afhendingu nýrra íláta til þess að geta tekið upp nýtt flokkunarkerfi og standa vonir til þess að geta dreift þeim á vormánuðum.

Hvað er það sem breytist?

Stærstu breytingarnar fyrir íbúa eru annars vegar sú að matarleifum verður nú safnað í sérílát og svo verður pappír og pappi aðskilinn frá plastinu í sitthvort ílátið. Aðrar breytingar eru svo þær að söfnun verður mjög sambærileg á landsvísu og teknar verða upp samræmdar merkingar með það að leiðarljósi að samræma og einfalda flokkun. Menn geta því sagt skilið við úrgangskvíðann sem átti það til að laumast með í sumarbústaðinn!

Hvers vegna er mikilvægt að flokka rétt?

Önnur stór breyting sem löggjöfin hefur í för með sér er að kostnaður íbúa vegna úrgangs mun verða breytilegur eftir árangri í flokkun. Úrvinnslugjald, sem lagt er á ákveðnar vörur og rennur til Úrvinnslusjóðs þegar varan er keypt greiðir fyrir meðhöndlun og úrvinnslu vörunnar þegar líftíma hennar lýkur. Úrvinnslugjaldið er er eingöngu lagt á endurvinnanlegar vörur eða umbúðir. Því er mikilvægt að varan sé sett í réttan úrgangsflokk enda geta sveitarfélög ekki sótt fé í sjóðinn fyrir óflokkað efni til brennslu eða urðunar.

Kynning og fræðsla

Eins og kom fram hér að framan hafa lögin þegar tekið gildi en breytingarnar verða innleiddar á næstu mánuðum. Mikilvægur hlekkur í að vel takist til í þessari vegferð er þátttaka íbúa.  Kynning og fræðsla til íbúa er því afar mikilvæg og munum við leggja mikla áherslu á upplýsingagjöf. Einnig verða breytingarnar kynntar vel á landsvísu, til þess að tryggja samræmdan skilning með það að markmiði að auka endurvinnsluhlutfall á landinu öllu.

Við hvetjum því íbúa á Suðurnesjum að láta sig málið varða, kynna sér þær breytingar sem fram undan eru og gera þær ráðstafanir sem til þarf þegar nýtt ílát bætist á heimilið.

Anna Karen Sigurjónsdóttir,
sjálfbærnifulltrúi Reykjanesbæjar.

Steinþór Þórðarson,
framkvæmdastjóri Kölku sorpeyðingarstöðvar sf.