Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Úr bæ í borg
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 13:57

Úr bæ í borg

Skipulagsmál er eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna hverju sinni. Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í Reykjanesbæ undanfarin ár og ekkert lát virðist vera á þeirri uppbyggingu. Ákvarðanir sem teknar eru í skipulagsmálum eru oft varanlegar og þ.a.l. þarf að vanda vel til verka.

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur íbúum Reykjanesbæjar fjölgað um tæp 20% en á sama tíma hefur ekki verið þörf á að brjóta land undir byggð. Allir innviðir svo sem óbyggð hverfi með götum, fráveitu og öllu tilheyrandi voru klárir til þess að mæta þeirri öru fjölgun sem hefur átt sér stað. Til viðbótar var til töluvert af ónotuðu íbúðarhúsnæði sem nú er orðið fullnýtt.  Ef spá Isavia gengur eftir verða íbúar Reykjanesbæjar 30 þúsund árið 2030.  Nú þarf að breyta aðalskipulagi, undirbúa ný íbúahverfi og hugsa til framtíðar. Brjóta þarf nýtt land undir byggð til að hamla ekki vexti og skapa óróleika á fasteigna- og vinnumarkaði.

Besti stuðningur sem sveitarfélagið getur komið með til þeirra sem eru að leita sér að þaki yfir höfuðið er að auka framboð á lóðum. Meira framboð á að skila sér í hagstæðara verði.  Nú eru að koma á markaðinn vel á sjötta hundrað íbúðir á Ásbrú, í Hlíðarhverfi, við Keflavíkurhöfn, í Dalshverfi og Tjarnarhverfi ásamt fyrirhuguðum íbúðum á Vatnsnesi og við Nesvelli.  Þær munu geta þjónað áætlaðri vaxtarþörf til ársins 2019. Að þeim tíma liðnum stefnir í lóðaskort. Á næsta kjörtímabili þarf að taka aðalskipulag Reykjanesbæjar til endurskoðunar og setja inn ný hverfi  sem núverandi meirihluti tók út. Halda þarf áfram með Dalshverfi í átt að Vogum og svo í framhaldinu ráðast í nýtt hverfi sunnan Reykjanesbrautar. Einnig eru töluverð tækifæri á þéttingu byggðar og uppbyggingu hverfa þar sem skólaumhverfi þola fjölgun nemenda.

Á Keflavíkurflugvelli verða til um 400 ný bein störf á ári næstu árin og töluvert af óbeinum störfum til viðbótar. Til að mæta þessari gríðarlegu aukningu starfa hafa mörg fyrirtæki gripið til þeirra ráða að fá til liðs við sig tímabundið erlent vinnuafl. Mikilvægt er að skipuleggja húsnæði fyrir tímabundið vinnuafl samhliða endurskoðun á aðalskiplagi. Mikilvægt er að dreifa slíku húsnæði skynsamlega um bæinn og leggja áherslu á að slíkt húsnæði þróist ekki í að verða hótel eða gistiheimili þegar ekki er lengur þörf á tímabundnu húsnæði.

Vinnum saman við að þróa Reykjanesbæ úr því að vera bær í skemmtilega smáborg.

Ísak Ernir Kristinsson
Skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
 

Public deli
Public deli