Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Upptalning forsætisráðherra eykur á áhyggjur Suðurnesjamanna
Föstudagur 18. mars 2011 kl. 12:26

Upptalning forsætisráðherra eykur á áhyggjur Suðurnesjamanna

Í ræðu sinni á Alþingi í vikunni gerði forsætisráherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fyrirhugaðar stórframkvæmdir hér á landi að umtalsefni.

Taldi hún upp nokkur verkefni, þar á meðal er Kísilmálmverksmiðja í Helguvík. Sérstaka athygli vakti að hún sleppti því að nefna stærsta og þjóðhagslega mikilvægasta verkefnið: Álver í Helguvík.


Þessi upptalning ráðherra, sætir furðu. Álver í Helguvík er það verkefni sem mun skapa flest störf hér á landi og skila mestum útflutningstekjum. Alþingi hefur þegar samþykkt að styðja uppbyggingu álvers í Helguvík með fjárfestingarsamningi. Í þeim samningi skuldbindur ríkisstjórnin sig til stuðnings við verkefnið, en þar segir „engin ráðstöfun verði gerð er gæti takmarkað eða á annan hátt haft neikvæð áhrif á framkvæmd verkefnisins“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Tafir stjórnvalda
Forsætisráðherra sagði í fyrrgreindri ræðu að ef litið væri til þeirra framkvæmda sem væru í undirbúningi, yrðu hér fljótlega sköpuð 2.200 - 2.300 ársverk og 500-600 bein varanleg störf til framtíðar sem er jákvætt.


Framkvæmdir við álver í Helguvík sem forsætisráðherra minnist ekki á skila um 8-10.000 ársverkum á byggingartíma og skapa yfir 2.000 varanleg störf, á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, að afleiddum störfum meðtöldum. Verkefnið í Helguvík er tilbúið til að fara á fulla ferð með framkvæmdir. Það sem stendur út af borðinu er fyrst og fremst að ganga endanlega frá útfærslu á orkusamningum. Þar hafa stjórnvöld því miður tafið fyrir.


Í fyrsta lagi hefur rammaáætlun um orkunýtingu verið tafin langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Í öðru lagi settu hótanir um eignarnám á HS Orku málið í uppnám á tímabili.

Þá hefur tregða Orkustofnunar til að heimila stækkun Reykjanesvirkjunar, þvert ofan í álit færustu sérfræðinga skapað óvissu og sett samninga um raforkukaup í uppnám, og ólögmætar aðgerðir  umhverfisráðherra tafið fyrir framgangi leyfisveitinga til virkjana í Þjórsá.

Þannig heldur ríkisstjórnin í raun aftur af framþróun orkuiðnaðar á Íslandi á sama tíma og rætt er um að nýta tækifæri í orkunýtingu til að reisa íslenskt efnahagslíf við.


Forsætisráðherra þarf í verki að sýna stuðning sinn við uppbyggingu álvers í Helguvík um leið og hún leggur öðrum verkefnum í atvinnuuppbyggingu í landinu lið.


Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ

Forystumönnum verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda hefur verið kynnt innhald þessarar ályktunar.