Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Uppstokkun og skýr endurreisnarstefna
Mánudagur 9. febrúar 2009 kl. 11:40

Uppstokkun og skýr endurreisnarstefna

Hávær krafa er um endurnýjun og uppstokkun í stjórnmálaflokkum landsins eftir efnahagshrunið. Krafa er um að nýtt fólk verði valið til starfa á næsta alþingi Íslendinga. Stjórnmálaflokkar verða að bregðast við þessu ákalli fólksins sem reyndar er þegar farið að hafa áhrif.
Krafan um breytingar er ekki síður hávær meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka og er reyndar, að margra mati, lykillinn að því að flokkurinn geti snúið vörn í sókn.

Viðurkenna mistökin og setja fram markvissa stefnu um endurreisn
Reynt hefur veri að kenna stefnu Sjálfstæðisflokksins um það hrun sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi. Eflaust hafa forysta Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hans gert mörg mistök á undanförnum árum, eins og reyndar margir fleiri, en sú grundvallarstefna sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á hefur ekkert með það að gera. Flestir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa meira og minna sofið á verðinum og dansað með í útrásar- og þennsludansinum. Meira að segja var sjálfur forseti lýðveldisins virkur þátttakandi í útrásarveislunni og mærði útrásarvíkingana sem mest hann mátti, þó að lítið fari fyrir þeim söng nú. Það er því engin innistæða fyrir því að ætla Sjálfstæðisflokknum og stefnu hans alla ábyrgð af því hvernig komið er.

Hitt er annað mál að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að horfast í augu við stöðuna og það sem miður hefur farið. Viðurkenna mistök sem gerð hafa verið, endurnýja sig, horfa fram á veginn og leggja fram skýra og markvissa áætlun um hvernig byggja megi upp til framtíðar á grunni þeirrar stefnu sem farsælust hefur verið fyrir land og þjóð í gegnum áratugina.

Valdið í höndum kjósenda
Það er krafa að almennings að mikil endurnýjun verði á framboðslistum fyrir komandi kosningar. Sú krafa er einnig hávær innan stofnana Sjálfstæðisflokksins því fólk gerir sér grein fyrir að endurnýjun er flokknum nauðsynleg nú á þessum tímamótum. Ný forysta mun taka við stjórnartaumum í flokknum á komandi landsfundi og þaðer flokknum nauðsynlegt að mikil endurnýjun verði í þingliði flokksins í öllum kjördæmum.
Í Suðurkjördæmi, sem og í flestum öðrum kjördæmum landsins, hefur verið ákveðið að viðhafa prófkjör til að raða upp á framboðslista fyrir kosningarnar í vor. Þar með gefst kjósendum tækifæri til breytinga. Það verður alfarið í höndum þeirra sem þátt taka í prófkjörunum að ná fram þeim breytingum og þeirri endurnýjun sem krafa virðist vera um.  Vald breytinga er hjá þeim sem þátt taka í prófkjörunum

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og framleiðsla er og verður undirstaðan
Sjálfstæðisflokkurinn þarf á endurnýjun að halda. Hann þarf  á því að halda að ná betri tengingu við almenning í landinu. Þingflokkurinn þarf að endurspegla litróf mannlífsins á Íslandi. Fólk úr öllum stéttum með mismunandi bakgrunn. Venjulegt fólk sem þekkir hvernig það er að vinna við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Fólk sem skilur á hverju við þurfum að byggja afkomu okkar til framtíðar. Fólk úr atvinnulífinu. Fólk sem hefur þurft að koma þaki yfir höfuðið og veit hvað það er að standa skil á þeim skuldbindingum sem því fylgja.Venjulegir Íslendingar í jarðsambandi við land og þjóð. Stétt með stétt.

Sjálfstæðisflokkurinn varð öflug fjöldahreyfing vegna þess að almenningur í landinu, fólk úr öllum stéttum, fann sér farveg með stefnu flokksins og fylkti sér um hana. Samband við þetta fólk þarf Sjálfstæðisflokkruinn að rækta og efla nú á þessum miklu umbrotatímumn. Þess vegna þarf að kalla nýtt fólk til forystu. Fólk sem er tilbúið að horfa til framtíðar og byggja upp.

Það er þörf á að kalla nýtt fólk til starfa nú þegar skýjaborgir pappírsviðskiptanna eru hrundar og þjóðin er að átta sig á því á ný að velferð okkar byggist á og mun alltaf byggjast á skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar og framleiðslu til útflutnings

Grímur Gíslason  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024