Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Upprisan er mikilvægust
Föstudagur 29. mars 2013 kl. 12:54

Upprisan er mikilvægust

Páskahátíðin er mikilvægasta hátíð kristinna manna. Þá reis Jesús Kristur upp frá dauðum og kristnir menn hafa alla tíð litið á upprisuna sem grundvöll trúar sinnar. Upprisan breytti því öllu. Við minnumst þess um helgina að Kristur var krossfestur, dáinn og grafinn en á þriðja degi reis hann aftur upp frá dauða og situr nú við hægri hönd Guðs til að dæma lifendur og dauða. Þetta er fegurðin við upprisuna sem við gleðjumst yfir á páskunum.

Þannig er það í persónulegu lífi breyskra manna að nýir tímar, upprisa frá því sem afvegaleiddi þá í lífinu er mikilvægasta stundin í lífinu fyrir fjölskylduna og þá sjálfa. Um páskana eins og aðrar helgar mun skuggi áfengis og vímuefnaneyslu hvíla yfir mörgum heimilum, fjölskyldum, mökum og börnum. Fjölmargir hafa misst tökin í lífinu og þeim gengur erfiðlega að fóta sig á ný. Margir leita hjálpar og aðstoðar. Stórkostlegir hlutir hafa gerst eftir að samtök eins og SÁÁ, Samhjálp og fleiri hafa hjálpað og stutt fólk sem misst hefur tökin á lífinu. Fagleg meðferð og læknisaðstoð er veitt veikum fíklum, áfengissjúklingum og fjölskyldum þeirra. Þúsundir hafa læknast og segja má að ótrúlegur árangur hafi náðst fyrir tilstilli þeirra samtaka sem láta málefni fíkla, áfengis- og spilasjúkra til sín taka. En það er kostnaðarsamt og það er kallað á hjálp.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ríkissjóður hefur miljarðatekjur af sölu áfengis, tóbaks og fjárhættuspila sem leyfð eru í landinu. Á sama tíma er svo komið að þær stofnanir og samtök eins og SÁÁ, sjúkrahúsið Vogur og aðrar sem halda úti meðferðarheimilum berjast í bökkum fjárhagslega. Of mikill tími fer í að útvega fé í reksturinn. Það er mikilvægt að við tryggjum rekstur þessara stofnana og samtaka. Það er gert með framlögum frá ríkinu, sem hvergi duga. Hugmyndir að hlutfall af hagnaði af sölu áfengis og tóbaks geti runnið til meðferðarmála er áhugaverð tillaga sem Alþingi ætti að skoða. Hverjum einstaklingi sem bjargað verður frá því böli sem fylgir ofneyslu lyfja eða áfengis fylgja mikil verðmæti. Ekki einungis fyrir samfélagið heldur fyrir fjölskyldu, maka og börn þeirra sem ná að snúa baki við fyrra lífi.

Veitum því birtu inn í líf þeirra þúsunda barna og fjölskyldna sem búa við böl og neyslu. Hver einstaklingur sem nær tökum á lífi sínu og rís upp til góðra verka í samfélaginu er óborganlegur sjálfum sér, fjölskyldu, börnum og þjóðfélaginu öllu. Með auknum opinberum stuðningi og gulum lit vonarinnar og páskanna veitum við fegurð upprisunnar inn á hvert heimili sem þess þarfnast og breytum sorg í von og tækifæri. Hugum að samfélaginu á mannlegum nótum.
Gleðilega páskahátíð.

Ásmundur Friðriksson
skipar 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.