Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Uppbygging og eignabruni
  • Uppbygging og eignabruni
    Hannes Friðriksson
Mánudagur 10. febrúar 2014 kl. 09:13

Uppbygging og eignabruni

– gott eða vont hjá meirihlutanum?

Því verður ekki neitað að á undanförnum árum hefur náðst allskonar árangur fyrir ýmsa á mörgum sviðum hér í Reykjanesbæ. Til góðs og til ills. Bærinn hefur batnað hvað útlit varðar, lögð hefur verið áhersla á uppbyggingu skólastarfs með góðum árangri og frábæru starfsfólki,   um leið og  skref hafa verið stigin í uppbyggingu öldrunarþjónustu hvað íbúa Reykjanesbæjar varðar. Réttilega er þá spurt um fórnarkostnað.  Eignasölu og tilraunastarfsemi í einkavæðingu án fordæma og skuldastabba sem margir líkja við gjaldþrot.

Byggingar og mannvirki  bæjarins hafa verið endurnýjuð mikið , svo kominn er rammi utan um  gott samfélag þar sem flestir ættu að finna sér eitthvað við hæfi, þannig að  hver og einn fái notið hæfileika sinna.  Fyrir bæjarbúa nú  hlaðna orku er komin tími til að njóta afraksturs undanfarinna ára.

En eins og oft vill verða í lífinu sjálfu, er ekki allt sem sýnist. Maður fær ekki allt sem maður vill og vill ekki allt sem maður fær.  Tíu ára fjárhagsáætlun  gerð að kröfu eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga hefur nú verið  lögð fram í bæjarstjórn  af þeim meirihluta er safnað hefur skuldunum. Þar kemur fram að eftir á að greiða fyrir mestan part þeirrar  uppbyggingar er fram hefur farið undanfarin tólf ár  og að strangs aðhalds verði að gæta eigi ekki illa að fara. Í nýjar framkvæmdir verði ekki ráðist nema fyrir andvirði seldra eigna.  Þá er lítið annað að gera en að njóta þess sæta með hinu súra. Einhver verður jú  að borga reikninginn.

Meirihluti sjálfstæðismanna hefur gert margt gott í gegnum tíðina, en líka gert mörg afdrifarík mistök. Er þá skemmst að minnast einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja,fordæmalausrar uppbyggingar á reikning Fasteignar ehf., og algjörlega ótímabærrar uppbyggingar hafnaraðstöðu í Helguvík.

Það vekur óneitanlega athygli að lítið sem ekkert er fjallað um þá tíu ára áætlun sem lögð hefur verið fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og afgreidd mun verða á næsta fundi hennar. Þar koma fram þær upplýsingar sem íbúum Reykjanesbæjar eru svo nauðsynlegar þegar þeir á ný velja sér fulltrúa til að fara með stjórn bæjarins. Tíu ára áætlunin er ekki glærusýning um vonir og væntingar, heldur blákaldur veruleiki sem öllum þurfa að vera ljósar. Þar er fjallað um uppbyggingu og eignabruna.  Kannski er það ástæðan fyrir að ekki er um hana fjallað nú ?

Meirihlutinn leggur nú fram tíu ára fjárhagsáætlun sem sýnir stöðuna  svart á hvítu. Þar er  sýnt hvernig á að ná þeim viðmiðum um skuldahlutfall er sveitarfélögum er ætlað uppfylla.  Fyrir það ber að þakka.  Það mun nú  taka íbúa Reykjanesbæjar næstu  tíu  ár að hreinsa niður skuldastabbann sem  meirihlutinn skilur  eftir sig eftir tólf ára valdatíma, þrátt fyrir gegndarlausar sölur eigna.  Hvort íbúar Reykjanesbæjar eigi svo eftir að þakka  sérstaklega fyrir það á eftir að koma í ljós.

Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024