Uppáhaldið þeirra
Börn og unglingar hafa gaman að því að prófa sig áfram í eldhúsinu. Því er um að gera að foreldrar veiti þeim leiðsögn frá unga aldri, leyfi þeim að gera sínar tilraunir og geri þau ábyrg fyrir matargerð fjölskyldunnar ákveðna daga í mánuði. Tvíburarnir Sandra Rún og Andri Þór hafa fengið að spreyta sig í eldhúsinu nokkuð reglulega og eiga orðið sínar uppáhalds uppskriftir.
Sandra Rún:
Satay kjúklingasalat
Fjórar eða fimm kjúklingabringur – skornar í bita og steiktar með smá olíu á pönnu.
Ein krukka Satay sósa, til dæmis frá Thai Choice – sósunni hellt yfir kjúklinginn og látið malla í smástund.
Einn pakki kúskús með sólþurrkuðum tómötum – útbúið samkvæmt leiðbeiningum.
300 g spínat. Einn rauðlaukur skorinn í sneiðar. Tveir avókadó eða mangóávextir – skornir í bita.
400 g kirsuberjatómatar – skornir í helminga. 200 g salthnetur eða cashew hnetur.
Ein krukka fetaostur án olíu. Annað hvort er öllu blandað saman í skál (sósumallinu af kjúklingnum er hellt með) og borið fram með brauði, hvort heldur heitu eða köldu, eða raðað í eldfast mót, þá fyrst spínatinu, svo kúskúsinu, kjúklingnum með sósunni, tómötunum, avókadó, rauðlauknum, fetaostinum og hnetunum.
Andri Þór:
Mér finnst mjög gott að borða góðan mat. Minn uppáhaldsréttur er hakk og spaghettí og gef ég því hér með uppskrift af Spaghettí Bolognese.
Spaghettí Bolognese. Eitt kíló af góðu nautahakki, tvær dósir af niðursoðnum tómötum, hálft bréf af beikoni, ein lítil dós af tómatþykkni, tvær paprikur, vatn eftir smekk, þrír laukar, ólívuolía, hvítlaukur, maldonsalt, sellerístöngull, pipar, fjórar meðalstórar gulrætur, oregano, timian og basilikum, einn chilipipar án kjarna.
Kjötið er steikt á pönnu við háan hita og síðan sett til hliðar í skál. Beikonið er skorið í bita og mýkt á pönnunni. Grænmetið er saxað og steikt í olíu á pönnunni og látið verða vel mjúkt. Öllu blandað saman í pott og látið sjóða við vægan hita í um tvo tíma. 400 grömm af spaghettí soðið og borið strax fram ásamt parmesanosti og brauði.