Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Unnur Brá vill 2. sæti X-D í Suðurkjördæmi
Föstudagur 13. febrúar 2009 kl. 15:46

Unnur Brá vill 2. sæti X-D í Suðurkjördæmi

Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og varaþingmaður, gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún óskar eftir stuðningi í 2. sæti í prófkjörinu.

Unnur Brá er 34 ára gömul og er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands en auk þess hefur hún stundað nám í opinberri stjórnsýslu (MPA). Unnur Brá leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi eystra í sveitarstjórnarkosningum 2006 með þeim árangri að flokkurinn bætti við sig manni og hefur Unnur Brá starfað sem sveitarstjóri frá þeim tíma. Þá tók Unnur Brá þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar og hlaut stuðning í 5. sæti listans líkt og hún stefndi að og hefur verið 1. varaþingmaður  Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á yfirstandandi kjörtímabili.

Unnur Brá er talsmaður breytinga í stjórnsýslunni, vill auka virðingu fyrir lýðræðinu og telur að grunngildi Sjálfstæðisstefnunnar hafi sjaldan eða aldrei átt meira erindi við íslenska þjóð en einmitt nú. Unnur Brá telur þörf á hugrökku fólki í framvarðasveit Sjálfstæðisflokksins til að fylgja eftir nauðsynlegum breytingum og til að takast á við það risavaxna verkefni að skera umtalsvert niður í opinberum rekstri. Unnur Brá telur að samfélag þar sem allar stéttir vinni saman að því markmiði að bæta lífsgæðin sé það sem þarf. Framtak einstaklinganna og frelsi þeirra til athafna sé lykillinn að því að tryggja  komandi kynslóðum bestu mögulegu lífsgæði á Íslandi til framtíðar. Í þeirri hugmyndafræðilegu deiglu sem nú er uppi í samfélaginu verða sjónarmið um frjálst og opið Ísland að verða ofan á.

Unnur Brá telur að við endurreisn efnahagslífsins á Íslandi sé mikilvægt að nýta auðlindir landsins skynsamlega, tryggja aðgengi að menntun og skapa atvinnulífinu þannig umhverfi að nýsköpun sem skilar landinu gjaldeyristekjum blómstri. Unnur Brá telur ljóst að endurskoða þurfi regluverkið um fjármálageirann og styrkja eftirlitstofnanir á því sviði.
Unnur Brá hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, svo sem varaformennsku í Kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, varaformennsku fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu og formennsku í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ. Unnur Brá situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Eftir að Unnur Brá lauk námi í lögfræði lá leiðin til Ísafjarðar þar sem hún starfaði sem fulltrúi sýslumanns 2000-2002. Þar af var hún sett sýslumaður á Ísafirði frá áramótum 2002 fram á vor. Unnur Brá starfaði sem fulltrúi sýslumannsins á Selfossi frá 2002-2004 og sem aðstoðarmaður við héraðsdóm Suðurlands. Hún var lögfræðingur hjá Fasteignamati ríkisins frá 2004-2006.

Unnur Brá er í sambúð með Kjartani Þorkelssyni sýslumanni á Hvolsvelli en þau eiga tvö börn, Konráð Óskar 4 ára og Bríeti Járngerði 9 mánaða. Auk þess á Kjartan tvær dætur frá fyrra hjónabandi þær Matthildi og Ingu Hrund.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024