Unnið að slysavörnum
– öryggisheimsókn til bæjarbúa á dögunum sem fæddir eru árið 1940
Slysavarndeildin Dagbjörg í Reykjanesbæ fór í öryggisheimsókn til bæjarbúa á dögunum sem fæddir eru árið 1940. Markmið með heimsókninni er að vekja íbúa til umhugsunar um slysahættur sem geta leynst inn á heimilum en tölur sýna að 75% slysa hjá þeim sem eldri eru eiga sér stað innan veggja heimilisins. Heilsan er öllum dýrmæt en slys geta haft langvarandi áhrif á hana. Slys hjá eldri borgurum hafa oft alvarlegri afleiðingar en hjá þeim sem yngri eru.
Viljum við þakka þeim sem tóku á móti okkur fyrir móttökurnar og benda þeim á sem ekki voru heima að við skildum eftir í póstkassanum ykkar gátlista þar sem bent er á helstu hættur á heimilum og bækling um örugg efri ár sem við vonum að þið kynnið ykkur.
Í könnuninni kom í ljós að yfirleitt eru öryggsimálin í góðum málum, helstu atriði sem má laga eru: að bæta úr lýsingu utandyra og í stigagöngum, lausar mottur og snúrur eru stundum að flækjast fyrir fótunum, gott að eiga góðar tröppur til að stíga uppá og þægilegt að hafa handföng við bað/sturtu til að grípa í. Á öllum stöðum voru reykskynjarar og allir virkir en sumum fannst erfitt að setja í ný batterí, á flestum stöðum voru slökkvitæki og eldvarnarteppin voru víða en sumstaðar vantaði kunnáttuna til að nota þessi tæki.
Einnig viljum við þakka Securitas fyrir stuðninginn, en þeir styrktu okkur um næturljós sem við færðum eldriborgurum að gjöf og fæstir áttu, en ljósin með sína góðu birtu eru bara sett í innstungu og eru þau frábær ef þörf er á að fara framúr í myrkrinu.
Að lokum viljum við félagar í Slysavarnadeildinni Dagbjörgu þakkar íbúum fyrir góðar og hlýjar móttökur.
Slysavarnadeildin Dagbjörg.