„Ungt fólk láti til sín taka í sameiningarmálum“
Steinþór Geirdal Jóhannsson var kjörinn nýr formaður Ungra Jafnaðarmanna á Suðurnesjum nú í nóvember. Steinþór tók við embættinu á aðalfundi félagsins sem haldinn var í 88 Húsinu en ný stjórn var einnig kjörin.
Á fundinum var samþykkt ályktun um aðgerðarleysi stjórnvalda hvað varðar Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Ályktunin er eftirfarandi:
„Ungir Jafnaðarmenn á Suðurnesjum harma aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum
varnarliðsins. Mikil óvissa ríkir í varnarmálum Íslands og virðist sem
Bandaríkjamenn séu algerlega við stjórnvölin í þessum málum. Ungir
jafnaðarmenn vilja að íslensk stjórnvöld vakni til lífsins og fái það á
hreint hvað sé að gerast. Ekki er lengur þolandi hin einhliða framkoma
bandarískra stjórnvalda í varnarsamstarfinu. Reglulega berast fréttir af
uppsögnum starfsmanna og hefur þetta ástand varað lengi. Þessi ótti um
atvinnuöryggið er skaðlegur fólki og honum verður að eyða. Sannleikurinn er
sagna bestur.“
En hver eru aðaláhersluefni nýkjörins formanns?
„Að vinna að sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum í þeim tilgangi að gera Suðurnesin að sterkari heild til að takast á við uppbyggingu hér á svæðinu. Sameinuð Suðurnes eru betur í stakk búin til að efla atvinnulíf og bæta mannlífið hér. Jafnframt er farið að styttast í sveitastjórnarkosningar og því mikilvægt að ungt jafnaðarfólk láti til sín taka í þeim málum,“ sagði Steinþór Geirdal formaður Ungra Jafnaðarmanna á Suðurnesjum.
Nýja stjórn Ungra Jafnaðarmanna á Suðurnesjum skipa eftirtaldir aðilar:
Steinþór Geirdal Jóhannsson, formaður
Brynja Magnúsdóttir, varaformaður
Linda María Guðmundsdóttir, ritari
Hilmar Kristinsson, gjaldkeri
Atli Sigurður Kristjánsson, meðstjórnandi
Árni Jóhannsson, meðstjórnandi
Davíð Bragi Konráðsson, meðstjórnandi
Gísli Þór Þórarinsson, meðstjórnandi
VF-mynd/ Jón Björn