Ungt fólk í Reykjanesbæ
Tvisvar á ári heldur Ungmennaráð Reykjanesbæjar góða fundi með bæjarstjórn og nú í nóvember átti ráðið tíu ára afmæli. Vel gert ungmennaráð og til hamingju með stórafmælið. Margar mjög góðar ræður voru fluttar um hvað mætti betur fara í bænum. Nemendur eru að kalla eftir aukinni sálfræðiþjónustu í skólum eða öðrum sérfræðingum til að styðja við andlega heilsu ungmenna. Of margir nemendur eru að glíma við kvíða og þunglyndi að sögn nemenda og þurfa þau aukinn stuðning. Nemendur vilja einnig fleiri félagsmiðstöðvar við grunnskólana því erfitt getur verið að koma sér í 88 húsið en einnig til að þétta nemendahópinn betur saman í hverjum skóla fyrir sig. Nemendaráð hefur mikið að segja um hvernig umhverfið í bænum á að vera og hvernig þjónustu þau vilja sjá í okkar samfélagi.
Í ræðum nemenda var vitnað í Barnasáttmálann, Heimsmarkmiðin og ýmsar rannsóknir. Vitnað var í niðurstöður kannana sem Rannsóknir og greining gera reglulega um líðan meðal ungs fólks. Áhersla er lögð á að meta þá þætti sem skipta máli í lífi ungmenna og meta breytingar í samfélaginu. Tíðarandinn breytist fljótt og höfum við náð góðum árangri varðandi reykingar og drykkju ungmenna en núna er verið að skoða betur koffínneyslu, rafrettunotkun og svefnvenjur ungmenna. Um 9,8% nemenda í 10. bekk nota rafrettur daglega og 8,3% hafa notað kannabis. Um 22,6% nemenda í 8-10 bekk meta andlega heilsu sína mjög góða og 28,2% meta líkamlega heilsu sína góða. Um 37% meta svo að þau fái oft eða alltaf nægan svefn á virkum dögum. Aðeins 15,5% nemenda mæta í félagsmiðstöð og þar er tækifæri til að fjölga verulega.
Mikilvægt er að hlusta á börn og ungmenni og koma til móts við þau svo líðan þeirra sé góð í skólakerfinu og einnig í samfélaginu. Í stefnu Reykjanesbæjar kemur fram að börnin séu mikilvægust, styðjum börn svo þau blómstri í fjölskyldunni, skólum, íþróttum og tómstundum til að auka kraft samfélagsins.
Anna Sigríður Jóhannesdóttir BA sálfræði og MBA,
bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ