Ungmenni undir aldri á skemmtistöðum og misnotkun skjala
Eitt af fjölmörgum hlutverkum lögreglu er að hafa eftirlit með framkvæmd laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Einn liður í því er að hafa eftirlit með skemmtistöðum en í Reykjanesbæ eru flestir veitingastaðir í flokki III, þ.e. staðir með áfengisveitingum sem hafa heimild til að hafa opið fram á nótt.
Sumum ungmennum virðist liggja mikið á að komast inn á þessa staði þó svo að þau hafi ekki náð 18 ára aldri en í 5. gr. laganna segir;
„Dvöl ungmenna á veitingastöðum.
Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. Dyraverðir, eftirlitsmenn, framreiðslumenn og/eða aðrir sem ábyrgð bera á rekstri staðarins skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 22 að kvöldi, án framangreindrar fylgdar, sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.“
Af og til fær lögreglan ábendingar frá áhyggjufullum foreldrum eða forráðamönnum ungmenna yngri en 18 ára þar sem sagt er frá því að barnið þeirra hafi komist inn á þennan og hinn skemmtistaðinn. Ávallt fylgir sögunni að dyravörðurinn hafi ekkert spurt um skilríki eða jafnvel að það hafi bara enginn dyravörður verið á staðnum.
Lögregla fer eins oft og kostur er í eftirlit á skemmtistaðina og á ágætt samstarf við veitingamenn. Í eftirlitsferð fyrir stuttu, í samstarfi við útideild Reykjanesbæjar, kom í ljós að sjö ungmenni 16 og 17 ára voru inni á einum staðnum eftir kl. 22:00. Þegar málið var skoðað kom í ljós að nokkur þeirra höfðu framvísað skilríki eða greiðslukorti annars manns. Samskonar eftirlit var viðhaft nokkrum dögum síðar og reyndist hið sama upp á teningnum, þrjú ungmenni voru inni á staðnum og öll höfðu þau framvísað skilríki eða greiðslukorti annars manns. Það að villa á sér heimildir eins og gert er með þessum hætti er brot á almennum hegningarlögum og viðurlög eru sektir eða fangelsi í allt að sex mánuði.
Lögregla hefur fundað með veitingamönnum í Reykjanesbæ vegna þessa vandamáls. Dyraverðir og aðrir starfsmenn skemmtistaða munu á næstu misserum leggja mikla áherslu á að kanna aldur gesta. Aukin áhersla dyravarða bar strax árangur um síðustu helgi þar sem fjögur ungmenni voru staðin að því að framvísa greiðslukorti annars manns.
Lögregla mun halda áfram eftirliti og lögreglustjóri mun taka til skoðunar þá vinnureglu að falla frá saksókn við fyrsta brot þegar ungmenni framvísar skilríki annars manns. Í ljósi sífelldra tilrauna ungmenna að komast inn á skemmtistaði með því að nota skilríki eða greiðslukort annarra kemur vel til greina að breyta verklagi og fara að beita sektum við fyrsta brot sem gæti numið tugum þúsunda.
Að lokum má nefna að það er ábyrgð foreldra og forráðamanna ungmenna að ræða við þau um lögin og hvaða afleiðingar brot á þeim geta haft fyrir framtíðina. Að hafa brot á sakaskrá getur haft alvarlegar afleiðingar svo sem varðandi nám erlendis eða atvinnuumsókn.
Það er ekki að ástæðulausu sem aldurstakmörk eru 18 ára inn á skemmtistaði í flokki III. Þeir skemmtistaðir eru með áfengisveitingar en áfengisveitingar eru ekki heimilaðar yngri en 20 ára. Rannsóknir sýna að ef við náum að fresta áfengisdrykkju barnanna okkur sem lengst þá er mikið unnið þar sem þau eru ólíklegri til að lenda í vandræðum með áfengi og afleiðingar áfengisneyslu. Ungmenni yngri en 18 ára eiga ekki erindi inn á skemmtistaði eftir kl. 22:00, þar sem áfengisneysla fer fram.
Ásókn ungmenna yngri en 18 ára á skemmtistaði, með áfengisveitingum, verður að linna. Verndum börnin okkar.
Skúli Jónsson,
aðstoðaryfirlögregluþjónn.