Ungir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi kalla eftir endurnýjun í forystu Sjálfstæðisflokksins
Sú kynslóð sjálfstæðismanna sem stýrt hefur landinu um 18 ára skeið stóð sig gríðarlega vel og náði Íslandi upp úr vítahring sífelldra efnahagslægða og kom því í hóp auðugustu ríkja heims. Sá árangur náðist með auknu frjálsræði einstaklingsins svo hann gat notið krafta sinna og hæfileika til hins ítrasta, sem gaf íslensku þjóðinni byr undir báða vængi og aukið sjálfstraust til að sækja fram. Þessi stefnubreyting markaði upphafið að langvarandi góðæristímum og meiri hagsæld en nokkru sinni í sögu lýðveldisins.
Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu telja ungir sjálfstæðismenn í kjördæminu þörf á nýrri endurreisn - endurreisn sem Sjálfstæðisflokkurinn einn getur leitt. Til að svo geti orðið teljum við að flokkurinn verði að taka tillit til krafna um breytingar og bjóða fram sterkan lista með fólki innanborðs sem hefur ferskar hugmyndir, nýjar áherslur og kjark og þor til að berjast fyrir hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar.
Eins þurfa sjálfstæðismenn að horfast í augu við atburði undanfarinna vikna og mánaða. Þó að flokkurinn hafi ekki valdið efnahagshruninu verðum við að geta sýnt þá auðmýkt að viðurkenna ábyrgð okkar eftir að hafa stýrt ríkisstjórninni nær samfellt í tæpa tvo áratugi.
En mikilvægast er þó að horfa fram á veginn. Ekki að velta okkur upp úr vandræðum gærdagsins, heldur að koma með trúverðugar lausnir fyrir morgundaginn, og sýna kjósendum að ferskar hugmyndir og nýjar lausnir byggðar á traustum grunni sjálfstæðisstefnunnar séu best til þess fallnar að rífa okkur hratt og örugglega upp úr þessari lægð.
Mælingar á fylgi flokksins undanfarið hafa sýnt að hann hefur tapað miklu fylgi meðal yngstu kjósendanna. Því er mikilvægara nú en nokkru sinni að Sjálfstæðisflokkurinn sýni að hann styðji við og treysti kröftum ungs fólks. Þess vegna hvetja ungir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi til þess að kynslóðaskipti eigi sér stað í forystusveit flokksins, bæði hér í kjördæminu sem og annarstaðar - og vonast til þess að sjálfstæðismenn um land allt geti sammælst þeim í þeirri hvatningu.
Eyverjar, Vestmannaeyjum
Fjölnir, Rángárvallasýslu
Freyja, Grindavík
FUS Hveragerði
Heimir, Reykjanesbæ
Hersir, Árnessýslu
Skaftfellingur, Höfn í Hornafirði