Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ungir og aldnir - góð blanda?
Miðvikudagur 19. október 2016 kl. 06:00

Ungir og aldnir - góð blanda?

- Aðsend grein frá Ara Trausta Guðmundssyni

Ég sat hluta af ráðstefnu ungmennaráða í Suðurkjördæmi um daginn og hafði bæði gagn og gaman af. Skilvirkni, kurteisi, málefnafesta og persónulegar sögur um vandræði vegna niðurskurðar í helstu geirum samfélagsins sitja eftir sem einkenni þessa fundar. Þarna var líka í fyrsta sinn safnað saman fulltrúum þessa nýmælis sem ungmennaráð eru. Nú fylgja fleiri landsvæði eftir!

Ráðin ná árangri innan bæjarfélaganna og gildir einu hvaða flokkar skipa meirihluta í hverju þeirra. Það hlýtur að vera vegna þess að kröfur og hugmyndir þorra ungs fólks eru raunhæfar og nauðsynlegar og vegna þess að allir skilja hverjir skipa framtíðina umfram þá sem eldri eru. Samgöngur, menntamál, heilbrigðismál, stoðkerfi skóla, heimavistir... umræðulistinn var langur. Í mínum umræðuhópi vorum við tveir karlar á efra aldursbili og sammála þeim yngri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tvennt vil ég taka út fyrir sviga og hnykkja á: Bætt háhraðatenging í allar byggðir Suðurlands og margbætt vinnuaðstaða þeirra sem fara í framhaldsnám eða hafa lokið því. Hið fyrra er líflína sveitabyggða jafnt sem bæja. Tæknivæðing, námsmöguleikar og atvinna heima fyrir er háð stafræna kerfinu og hröðum samskiptum. Uppbygging þessara innviða og vegakerfisins verður að vera í verulegum forgangi. Vinnuaðstaða í dreifbýli og minni bæjum er, þessu til viðbótar, háð vilja fyrirtækja til að dreifa vinnu sem unnt er að sinna í fjarvist og stefnu stjórnvalda um að flytja hluta starfsemi sveitarfélaga og ríkisstofnana út fyrir veggi í miðlægum skrifstofum eða höfuðborginni. Enn fremur er rétt að koma upp fleiri skóladeildum (bæði á verkmenntunar- og bókmenntunarstigi) sem víðast, ásamt háskólasetrum sem geta bæði boðið upp á rannsóknaaðstöðu og fjarnám, jafnvel undir handleiðslu. Treysti kjósendur Vinstri-grænum til þessa munum við sem skipum lista hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi ekki gugna eða bregðast traustinu svo lengi sem stætt er í því samningaferli er næsta samsteypustjórn mun ganga í gegnum áður en hún leggur úr vör. Raunsæi og stefna jöfnuðar og jafnréttis eiga alltaf við.

Ari Trausti Guðmundsson skipar 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi