Ungbarnastyrkur brúar bilið
Það er stefna Miðflokksins í Reykjanesbæ að þegar fæðingarorlofi lýkur við 12 mánaða aldur og fram að leikskólavist þá fái hvert barn ungbarnastyrk. Styrkurinn skal vera hlutfall af raunverulegum kostnaði bæjarfélagsins af hverju leikskólaplássi.
Það er ákall samfélagsins að brúa þarf bilið frá lokum fæðingarorlofs og fram að leikskólaplássi en þessi tími getur verið foreldrum erfiður fjárhagslega þar sem þau þurfa oft að draga úr vinnu vegna umönnunar barnsins.
Við í Miðflokknum teljum að með ungbarnastyrk þá verði fyrirsjáanleiki foreldra í umönnun barnsins mun meiri og foreldrar geta líka ákveðið án afleiðinga fyrir fjárhaginn að draga úr vinnu og verið þannig meira heima með barninu fram að föstu leikskólaplássi.
Samkvæmt tölum frá Samtökum íslenskra sveitafélaga, frá árinu 2020, þá var meðalkostnaður á hvert barn í leikskóla, að frádregnum þjónustugjöldum, 2.700.000 kr. á ári sem gerir rétt rúmar 245.000 kr. á mánuði miðað við 11 mánaða vistun. Gera má ráð fyrir að þessar tölur hafi hækkað síðan þá.
Bæta þarf kjör og aðstæður leikskólakennara
Leikskólar starfa eftir lögum um leikskóla og ríkar kröfur eru gerðar um umönnun og menntun, búa þarf börnunum holt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Til að svo megi verða þá þarf leikskólakennara ásamt öðru starfsfólki.
Nú háttar svo til að það vantar um 1.800 leikskólakennarar á landinu og Reykjanesbær fer ekki varhluta að því. Það er því til lítils að byggja leikskóla og halda að leikskólakennarar séu hilluvara sem hægt sé að ganga í að vild. Margir leikskólar í dag eru því undirmannaðir sem kemur niður á þjónustu við börnin.
Verkefni Reykjanesbæjar á auðvitað að ganga út á að bæta kjör og aðstæður leikskólakennara í núverandi leikskólum og sinna forgangshópum. Miklu frekar en að fara í kostnaðarsamar breytingar á byggingum og viðbótarbyggingum þegar fyrir liggur að ekki er hægt að manna skólanna með réttu starfsfólki.
Með því að gefa foreldrum aukna möguleika í umönnun með ungbarnastyrk þá verði kostnaður samfélagsins minni til lengri tíma litið og það gefur bæjaryfirvöldum aukið svigrúm til að byggja upp öfluga og vel mannaða leikskóla sem eru forsenda fyrir öflugu samfélagi.
Eggert Sigurbergsson
Höfundur er í 2. sæti Miðflokksins í Reykjanesbæ