Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ung-frúin opnar sig!
Þriðjudagur 27. júlí 2010 kl. 14:48

Ung-frúin opnar sig!

Sælir verið þið bæjarbúar góðir.

Hef verið í ritbindindi og nánast í losti s.l. ár. Sumt af því sem ég hef skrifað hefur heldur ekki þótt birtingarhæft, svo undarlegt sem það nú er. Fyrir þá sem ekki vita þá hef ég setið í bæjarstjórn RNB s.l. 8 ár og þar á undan 4 ár sem varabæjarfulltrúi. Margt gott situr eftir í minningunni og vil ég nota tækifærið og þakka öllu því ágæta fólki fyrir gott og heillaríkt samstarf á hinum mismunandi sviðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En því er nú þannig farið að ég hef þráð það að fara að horfa á lífið utan frá, þ.e.a.s. hins opinbera lífs. Fannst þetta alltaf svolítið þvingandi, þrátt fyrir hið yndislega sviðsljós sem ég elska meir en orð fá lýst. Þannig er það nú, þótt ótrúlegt megi virðast, að ég er að reyna að stroka yfir pólitík og finna sjálfa mig og hvað mér í raun finnst um það sem hefur verið að gerast. Það er ýmislegt sem ég hef gert rangt og margt hefði ég getað gert betur en alltof oft hefur mér blöskrað. Eins og mér hefur nú innst inni þótt vænt um marga, af mínum bæði svokölluðu andstæðingum og ekki síður hinum svokölluðu samherjum, þá hefur það sært stolt mitt að vinna með fólki sem fyrst og síðast virðist finna ró í því að skara eld að eigin köku, þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni lyst á henni sjálft. Auk þess verð ég að segja að mér hefur bara ekkert þótt gaman að pólitík s.l. ár í Reykjanesbæ, því þetta er mun fremur farið að líkjast trúarbrögðum en pólitík og eins og ég er nú trúuð manneskja þá hefur bókstafstrú aldrei hugnast mér og það verður líklega seint. En nóg um það.

Það sem hryggir mig þó mest nú er að horfa upp á það sem hefur verið að gerast í bankakerfinu. Ég hef sinnt því starfi í gegnum árin að leiðbeina fólki á ýmsum skólastigum og þykir mér ekkert starf meira heillandi en einmitt það. Ég hef kennt strákum og stelpum sem hafa valið sér ólíkar brautir og það virðist vera að drengjunum hafi flestum þótt viðskiptaumhverfið nokkuð freistandi , tja fremur en t.d. uppeldis- kennslu -og umönnunargreinar. Hvað kemur nú á daginn? Þessum „drengjum“ hefur verið att út í vitleysuna og það virðist nánast þykja eðlilegt að þeir séu einmitt ráðnir inn í bankana, ráðgjafastofur eða ýmis fjárfestingafyrirtækin. Þeir fá fyrst þjálfun frá konum á mínum aldri og síðan eru þeir settir inn í bakherbergi og þar eiga þeir að „gambla“ með peningana mína og fleiri ágætra fremur saklausra borgara sem telja sig hafa unnið fyrir þeim. Nú er það svo að þessir „drengir“ eru á margföldum launum bæði kvennanna (í bankanum, á mínum besta aldri) svo ég tali nú ekki um stelpnanna sem eru jafnvel að sinna því sama eða jafnvel og takið nú eftir því sem mestu skiptir í þessu lífi, kennslu, uppeldi og umönnun.

Ég veit reyndar ekki núna þessa stundina hvort ég finn eins mikið til með stelpunum með lágu launin eins og ég finn nú til með strákunum með himinháu launin en litla tiltrú „kredabilitíð“.

En nú krefst ég þess einfaldlega að það verði uppstokkun á þessu kerfi okkar og drengir í jakkafötum, með góðan vilja en jafnvel takmarkað vit, verði teknir með vara og þeim kennt að það fæst ekkert í þessu lífi nema að vinna fyrir því og að drengskapur liggi þar að baki.

Það verður ekkert til af engu og allt sem fer upp kemur niður aftur og svo að lokum það besta sem ég hef heyrt lengi. Þú kemst ekki með einkaþotu til himnaríkis. Bara svo það sé á hreinu. Það er eins gott að fólk átti sig á því!

Megi þið öll njóta hins yndislega íslenska sumars mínir kæru samlandar og aðrir sem þetta lesa.

Sveindís Valdimarsdóttir,

sjálfstæð, framsækin, samfylkingarkona í sumarfríi.