Undirskriftarlisti vegna lokunar deildar á Suðurvöllum
Síðastliðna mánuði hafa nokkrir bæjarbúar safnað undirskriftum gegn því að hætt verði að taka inn börn á leikskólann Suðurvelli sem eru yngri en 2 ára og yngstu deildinni lokað í kjölfarið.
Bæjarfulltrúar hafa átt ágætar samræður við forsvarsmenn undirskriftarlistans og fengið gagnlegar athugasemdir. Við tókum mið af þeim athugasemdum og því var frestað að loka yngstu deildinni þar til árgangur 2007, sem er sérstaklega fjölmennur, fer í grunnskóla (það er sumarið 2013). Þá losna óvenju mörg pláss og því verða biðlistar eftir plássi styttri.
Á síðasta ári auglýstum við eftir dagmæðrum í sveitarfélagið og því miður hefur sú auglýsing ekki borið árangur. Með því að fresta lokununni gefst meiri tími til að finna einstaklinga sem vilja starfa sem dagforeldrar í sveitarfélaginu.
Við höfum hlotið mikla gagnrýni vegna þess að við viljum ekki draga þessa ákvörðun til baka. Rök okkar eru þau að í bæjarstjórn var á sínum tíma alger samstaða um ákvörðunina, málið var einnig kynnt í fræðslunefnd á sínum tíma, án athugasemda. Í nágrannasveitarfélögum eru leikskólarnir að öllu jöfnu ekki að taka inn börn yngri en 2 ára og umönnun svo ungra barna er að mínu mati ekki síður vel sinnt í því persónulega umhverfi sem dagforeldrar geta boðið upp á.
Með þessum skrifum er ég ekki að gagnrýna undirskriftarlistann og geri ekki athugasemdir við að söfnuninni sé haldið áfram þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi komið til móts við kröfur hópsins. Það er réttur bæjarbúa að safna undirskriftum og ef næg þátttaka verður þannig að farið verður í íbúakosningu, þá verður það að sjálfsögðu gert.
Ég vona að við getum fengið dagmæður í okkar góða sveitarfélag áður en til lokunarinnar kemur. Ef það markmið næst ekki er sjálfsagt að skoða málið aftur. Ég vil að lokum nota tækifærið og minna á að sveitarfélagið leitar eftir dagforeldrum í sveitarfélagið og bið alla sem hafa áhuga á slíku starfi að setja sig í samband við félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga.
Með vinsemd,
Inga Sigrún Atladóttir
forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum