Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Undirskriftalistar
Fimmtudagur 1. nóvember 2007 kl. 10:15

Undirskriftalistar

Mér finnst merkilegt framtak Hannesar Friðrikssonar íbúa í Reykjanesbæ, þar sem hann beitir sér fyrir áskorun til sveitarstjórna að tryggja meirihlutaeigu sveitarfélaganna í Hitaveitu Suðurnesja. Eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum eru undirtektir mjög góðar og þegar hafa mjög margir sett nafn sitt á undirskriftalistana. Hannes vill að áfram verði tryggt að sveitarfélögin fari áfram með orkuöflun,sölu og dreifingu á vatni og rafmagni.


Málefni orkufyrirtækjanna hafa að undanförnu vakið mikla athygli og ásókn einkaaðila til að komast yfir þau ,hvers vegna er áhugi einkaaðila svona mikill? Sala sveitarfélaganna á hlut sínum í HS vekur upp margar spurningar. Hvers vegna selja þau öll nánast  það sama þ.e. allan sinn hlut, eiga aðeins vel innan við eitt prósent áfram. Höfðu þau samráð um það? Hver er hlutur Reykjanesbæjar í öllu ferlinu? Gerðu fulltrúar sveitarfélaganna sér ekki grein fyrir því að með sölu gætu þau verið að afhenda einkaaðilum meirihlutann í Hitaveitunni?


Einhvern veginn finnst manni skrítið ef þau þurfa svo að fara að kaupa til baka hlutabréf til að forða því að einkaaðilar nái meirihluta.Á hvaða gengi þurfa þau að kaupa?


Mér finnst líka athyglisvert sem Hannes segir um það að íbúar hafi aldrei verið spurðir. Nú er það svo að ákveðnir sveitarstjórnarmenn hampa því mjög að þeir vilji hafa íbúalýðræði og að íbúarnir fái að hafa sem mest áhrif á ákvarðanatökuna. Sumir vilja hafa íbúakosningu um stærri mál.


Ég held að flestir geti verið því sammála að það er ansi stórtmál hvort sveitarfélögn selja sinn hlut í jafn stóru og miklu fyrirtæki eins og Hitaveita Suðurnesja er.Það er ekkert smá mál hvort eigi að afhenda einkaaðilum forsjá fyrirtækis eins og Hitaveitu Suðurnesja. Eftir að það gerist hafa sveitarfélögin ekki þau áhrif á gjaldskrá og þróun fyrirtækisins eins og áður. Auðvitað geta sveitarstjórnarmenn haldið því fram að miklir peningar hafi fengist fyrir hlutabréfin. Rétt er það. Eftir stendur samt að íbúarnir voru ekki spurðir að því hvað þeir vildu. Fá mál hefðu samt haft eins mikla þörf fyrir kynningu,umræðu og þátttöku almennings eins og þetta mál.Það á ekki að vera nóg að ræða aðeins við íbúana um smærri málin en skilja stóru málin eftir ef svo ber undir. Allavega virtist það ekki passa að ræða söluna á Hitaveitu Suðurnesja við íbúana.


Eftir stendur spurningin hvers vegna mátti ekki ræða þetta mál á íbúafundum og fá álit íbúanna.

Sigurður Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024