Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Undirbúningur fyrir háskólanám
Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 12:16

Undirbúningur fyrir háskólanám

Nú eru skólar landsins að hefja göngu sína á ný eftir gott sumarfrí. Nemendur eru að koma aftur inn í skóla sína, en  þó eru sumir að hefja nám að nýju eftir margra ára hlé.
Miðstöð símenntunar hefur undanfarin ár haldið utan um og séð fyrir aðstöðu til að Suðurnesjabúar geti stundað háskólanám á svæðinu. Sú þjónusta hefur mælst vel fyrir og hafa nú um 40 einstaklingar útskrifast frá Háskólanum á Akureyri í gegnum Miðstöðina. Það eru 83 einstaklingar sem munu stunda háskólanám í gegnum Miðstöð símenntunar nú á haustönn. Fjöldi nemenda sem sóttu um skólavist fyrir haustönnina hefur aldrei verið meiri, sem sýnir að íbúar hér hafa áhuga á að læra.

Því miður fengu ekki allir inngöngu sem sóttu um. Yfirleitt er ástæðan sú að umsækjendur fullnægðu ekki inngönguskilyrðum. En hvað er til ráða fyrir þá sem fengu ekki inngöngu núna? Eitt er víst, að eftir þetta ár kemur annað ár. Því er tilvalið að nota tækifærið á þessu skólaári og halda áfram með undirbúning fyrir frekara nám. Almenn og lögbundin skilyrði til inntöku í Háskólann á Akureyri eru að umsækjandi hafi stúdentspróf eða aðra sambærilega menntun. Nokkrar undantekningarreglur eru þó á því, en einungis takmarkaður fjöldi kemst inn á þeim undanþágum. Því er mikilvægt að þeir sem hafa hug á frekara námi skoði tímanlega hvaða undirbúning þeir hafa og hvort eitthvað vanti upp á til að inngöngu skilyrðum sé fullnægt. Nú er ár til stefnu fyrir þá sem ekki fengu inngöngu fyrir komandi skólaár en hafa jafnframt áhuga á að stunda háskólanám. Því er mikilvægt að nota þetta ár vel til undirbúnings til þess að auka líkur á inngöngu á næsta ári. Æskilegt er að þeir sem hafa hug á námi á næstu árum leiti til námsráðgjafa til að skoða hvort frekari undirbúnings sé þörf.

Hægt er að leita aðstoðar hjá Miðstöð símenntunar, námsráðgjafa hjá Fjölbrautaskólaskóla Suðurnesja og einnig er hægt að leita beint til námsráðgjafa í Háskólunum.
Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024