Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Undir fölsku flaggi
  • Undir fölsku flaggi
Föstudagur 30. maí 2014 kl. 14:13

Undir fölsku flaggi

– Páll Árnason skrifar

Ágæti kjósandi
Ég hef búið í Reykjanesbæ í yfir 30 ár og kynnst fjöldanum öllum af góðu fólki. Síðustu ár hef ég starfað sem sjálfboðaliði í Virkjun mannauðs og velferðar á Ásbrú, nú síðast sem umsjónarmaður sem hefur verið mjög gefandi starf. Í Virkjun kemur fólk úr öllum áttum og með mismunandi bakgrunn til að eiga góða stund með öðru fólki við hina ýmsu tómstundaiðju. Mikið hefur verið rætt um bæinn okkar og hvað mætti betur fara varðandi þá sem verra væru staddir og heyrðust margar sorglegar sögur. Mörg okkar dreymdi um að geta verið í aðstöðu til að hjálpa þessu fólki og viti menn, tækifærið kom.

Haft var samband við mig og beðið um sal undir stofnfund Pírata í Reykjanesbæ sem var auðfengið enda Virkjun öllum opin. Var ég viðstaddur stofnfundinn og heillaðist svo af grunnstefnunn Pírata að ég skráði mig sem stofnfélaga, í stjórn og síðan í framboð fyrir flokkinn. Kosið var í sæti og lenti ég í því fjórða sem ég var mjög ánægður með. Upp frá þessu lagði ég mikla vinnu í framboðið og hafði gaman að.

Svo tóku hlutirnir að breytast. Ég fékk það hlutverk að gera uppkast að stefnuskrá sem ég mætti með á málefnafund. Skjal upp á fjórar blaðsíður sem var skorið niður í rétt rúma síðu, því samkvæmt oddvitanum mátti ekkert koma fram í stefnuskránni sem myndi styggja önnur framboð með samstarf í huga eftir kosningar. Ítrekað benti ég á að samkvæmt grunnstefnu Pírata skulduðum við kjósendum skýr svör og upplýsta umræðu. Í grunnstefnu Pírata segir m.a. 


1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.


1.4 Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur.


6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.



Fleiri frambjóðendur voru mér sammála og vildu fá að koma skoðunum sínum á framfæri og gefa kjósendum skýr og greinagóð svör. Boðað var til vikulegra funda sem voru svo aldrei haldnir. Þá fór fólk að tjá sig á sérstakri frambjóðendasíðu en allt kom fyrir ekki. Oddvitin tjáði okkur að það væri á hreinu að hann gæfi ekki yfirlýsingar um hluti sem honum hugnaðist ekki og tók einnig fram að það væri betra að gefa loðin eða engin svör heldur en styggja einhverja. Þetta hefur síðan endurspeglast í kosningabaráttunni þar sem hann hefur svarað mjög loðið og hefur fáar lausnir aðrar en að skoða málin eftir kosningar. Eitt ákveðið svar hefur þó fengist hjá honum, þegar hann svaraði ákveðið já við spurningu fréttamanns um hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar. Reyndar sagði hann tvisvar ákveðið já og hafði engar athugasemdir þegar svar hans var endurtekið. Þetta var ekki það svar sem meirihluti frambjóðenda vildi gefa. Síðar hefur birst yfirlýsing þar sem hann segist ekki hafa fengið tækifæri til að útskýra sitt mál. Þetta er auðveldlega hægt að sjá t.d. á visir.is og dæmi hver fyrir sig. Í sömu yfirlýsingu eru einnig birt hrein ósannindi um brotthvarf mitt úr flokknum og 100% stuðning við oddvitann. Brotthvarf mitt tengist engum kosningum eins og haldið er fram enda engar kosningar verið haldnar, heldur þvert á móti ákvað ég að draga mig út þar sem ekki mátti kjósa um málefnin og engin ákveðin svör gefa. Auk þess tók oddvitinn upp á því að persónugera í mér það sem ekki var honum að skapi þó svo að jafnvel meirihluti frambjóðenda væri á sömu skoðun og hafði lýst því yfir sjálft og á eigin forsendum.

Þetta finnst mér ekki fara saman við grunnstefnu Pírata varðandi lýðræði og rétt fólks til að vera upplýst þegar það tekur ákvörðun í kjörklefanum en sú ákvörðun hefur áhrif á framtíð okkar sem íbúa í Reykjanesbæ. Rétt er líka að taka fram að stuðningur við oddvitann er fjarri 100% og tók fólk það skýrt fram áður en það var birt opinberlega í óþökk þeirra.

Þegar þetta er ritað hafa 3 frambjóðendur sagt sig formlega úr Pírötum og aðrir 3 munu fylgja í kjölfarið enda hefur umræðan í netheimum Pírata einkennst af persónulegu skítkasti á okkur sem viljum vera trú okkar sannfæringu. Það hefur meira að segja verið boðað til bjórdrykkju og sunds meðal Pírata á þeirra stærstu spjallsíðu til að fagna brotthvarfi okkar. Öll orka Pírata í Reykjanesbæ fer þessa dagana í að skíta út persónur. Ekkert hefur heyrst frá þeim um helstu baráttumál Pírata, s.s. opna bókhaldinu, hvernig íbúalýðræðið á að virka og gagnsæju stjórnsýslunni, svo eitthvað sé nefnt. Þarna er einfaldlega verið að sigla undir fölsku flaggi.

Þeir sem vilja sjá breytingar í bænum okkar hafa aðra góða kosti. Það er mjög gott og frambærilegt fólk í framboði og gaman væri að sjá jafnari kynjahlutföll í bæjarstjórn. Ég sé gott tækifæri til til þess með því að kjósa Beina leið.

Ekki velja óbreytt ástand með því að mæta ekki á kjörstað eða skila auðu, nýtum kosningarétt okkar.



Páll Árnason
fyrrverandi sjóræningi en umfram allt íbúi í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024