Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Umkenningaleikur
Fimmtudagur 25. ágúst 2011 kl. 09:20

Umkenningaleikur


Það eru alþekkt viðbrögð hjá þeim sem illa þola gagnrýni eða málefnalega umræðu, að leita allra leiða til að þagga umræðuna niður. Algengast er að gripið sé til persónulegra árása á þann sem gagnrýnir eða setur fram gagnstæð sjónarmið. Svo virðist sem viðbrögð bæjarstjórans í Reykjanesbæ við grein minni sem birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst séu í slíkum anda.


Aðgerðir í atvinnumálum
Staða Suðurnesja er alvarleg. Hvergi á landinu er meiri þörf fyrir aðgerðir í atvinnumálum jafnt sem félagsmálum. Með brotthvarfi hersins féll ein helsta stoð atvinnu á Suðurnesjum. Miklar vonir voru bundnar við stóra lausn til mótvægis í formi álvers í Helguvík. Það mál höfum við þingmenn Samfylkingarinnar stutt með ráðum og dáð. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ veit betur en nokkur annar að það sem mestu ræður um að þær framkvæmdir eru ekki lengra komnar, snýr að ágreiningi Norðuráls og nýrra eigenda HS Orku. Ágreinings sem nú er fyrir gerðardómi í Svíþjóð. Þá var staða OR ekki til að flýta framkvæmdum við Hverahlíðavirkjun en vonir standa til að lífeyrissjóðir komi að henni og útvegi orku til álvers.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt sig alla fram við að styðja við atvinnusköpun á Suðurnesjum og aðgerðir sem stemma stigu við langtíma atvinnuleysi og þeim slæmu aukaverkunum sem því fylgja. Því til merkis eru t.d. virk velferðarvakt á Suðurnesjum, kortlagning menntunarmöguleika ungmenna og stofnun atvinnuþróunarfélags en fyrst og fremst sýna fjárfestingasamningar vegna einstakra verkefna og lagabreytingar skýran vilja til að greiða fyrir atvinnusköpun á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fjárfestingasamningar og orkusala
Umhverfi til atvinnustarfsemi og samningar um þarfir einstakra verkefna eru á valdi ríkisstjórnar. Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafa verið gerðir samningar vegna gagnavers á Ásbrú, kísilvers í Helguvík og álvers í Helguvík, fjárfestingarsamningar sem liggja þeim áformum og framkvæmdum til grundvallar.

Þar sem hægir hins vegar á þessum stóru og mannfreku verkefnum eru staðir þar sem bein aðkoma ríkisins er ekki möguleg eða æskileg, s.s. samningar um orkusölu eða lánasamningar til fjárfesta. Það þjónar heldur ekki hagsmunum Suðurnesjamanna að taka áhættu sem gæti skaðað hag okkar til framtíðar, svo sem með óvandaðri undirbyggingu virkjunarleyfa.

Ráðherrar eða þingmenn lyfta ekki bara upp símtóli og ákvarða orkuverð eða ríkistryggingu lána til einkaaðila. Fyrirgreiðslupólitík af því tagi er ekki lengur við líði sem betur fer.


Vonir og væntingar
Það er eðlilegt að Suðurnesjamenn geri meiri kröfur til mín en annarra þingmanna þar sem ég þekki aðstæður þeirra og svæðið mjög vel. Þeim vonum og væntingum legg ég mig alla fram um að standa undir. Óháð dylgjum bæjarstjórans í Reykjanesbæ þá mun ég að loknum kjörtímabilinu leggja stolt störf mín í dóm kjósenda.

Ég vísa á bug gagnrýni sjálfstæðismanna sem sett er fram á persónulegum nótum en hvet enn til samstarfs um hag Suðurnesjamanna og að gengið sé fram með málefnalegri reisn. Skeytasendingar í fjölmiðlum gera ekkert gagn eða umkenningaleikur sem beinir sjónum frá því sem máli skiptir. Skipulagt samstarf og samráð, líkt og iðnaðarráðherra hefur staðið fyrir um álverið í Helguvík, gætu hins vegar haft góð áhrif. Heimamenn, fyrirtæki og fjárfestar þurfa að skynja vilja stjórnmálamanna, hvar í flokki sem þeir standa, til að vinna saman að endurreisn efnahagslífs og samfélags eftir stórkostlegt efnahagshrun. Yfirvegun og vandvirkni á að vera okkar leiðarljós, minnug þess hvert fljótfærni og glannaskapur fyrri ára leiddi okkur.


Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar