Umhverfisráðherra ógildi gallað álit Skipulagsstofnunar
Nú hefur Aðalheiður Jóhanndóttir, dósent í lögfræði við Háskóla Íslands, komist að þeirri niðurstöðu að álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík sé gallað. Gallað álit ber að ógilda.
Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar vegna álvers í Helguvík yrði háhitasvæðunum við Ölkelduháls, Seltún, Sandfell, Austurengjar og Trölladyngju öllum fórnað ef áform um álverið ná fram að ganga. Sú fórn væri með öllu óréttlætanleg. Ölkelduháls og umhverfi hans er dýrgripur á náttúruminjaskrá og það ber að virða. Krýsuvíkursvæðið er í hjarta Reykjanesfólkvangs sem er einstakt útivistarsvæði með jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu. Því skorum við á umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að ógilda gallað álit Skipulagsstofnunar og sjá til þess að framkvæmt verði heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og allar tengdar framkvæmdir og vísum þar í kæru Landverndar.
Þrátt fyrir að mjög mikil óvissa ríki bæði um orkuöflun og orkuflutninga fyrir álver í Helguvík er að skilja á yfirlýsingum Garðs og Reykjanesbæjar að til standi að hefjast handa við byggingu álversins fljótlega. Sú fyrirætlan er beinlínis til þess fallin að setja ómaklegan þrýsting á önnur sveitarfélög sem hlut eiga að máli. Slíku verklagi ber að afstýra með öllum tiltækum ráðum.
Aðeins lítill hluti orkunnar sem til þarf, eða u.þ.b. 20%, er í landi Reykjanesbæjar en enga orku er að finna í Garði. Ásælni sveitarfélaganna tveggja í auðlindir annarra tekur út yfir allan þjófabálk og við slíkan framgang er ekki hægt að una. Ítrekaðar ábendingar Skipulagsstofnunar um að eyða þurfi óvissu um orkuöflun og orkuflutninga áður en framkvæmdir hefjast eru að engu hafðar með yfirlýsingum sveitarfélaganna tveggja og talsmanna Norðuráls undanfarna daga.
Samtökin Sól á Suðurnesjum