Um vistvæna útgerð til eflingar atvinnulífs
Aðalfundur svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Suðurnesjum hvetur stjórnvöld til þess að auka verulega hlut strandveiða við úthlutun aflaheimilda og gefa eigendum smábáta, upp að 10 metra löngum, ríkulegt svigrúm til frjálsra handfæraveiða. Ennfremur verði stuðlað að aukinni vinnslu fiskafurða í landi fremur en hráefnaútflutningi og úthafsvinnslu.
Þannig verði byggðir með ströndum landsins efldar með smábátaútgerð og fiskvinnslu jafnhliða því sem unnið verði að langtímahagsmunum og viðhaldi vistkerfa með því að takmarka aðgang botnlægra veiðarfæra. Brýn þörf er á innspýtingu í atvinnulíf um land allt og á það ekki síst við hér á Suðurnesjum sem hafa mátt þola margvísleg áföll á skömmum tíma. Til viðbótar við efnahagshrun ber þar hátt blessunarlegt brotthvarf hersins auk þess sem útgerð hefur lagst af í sumum byggðalögum svæðisins. Skjótvirkari úrræði til eflingar atvinnulífs á Suðurnesjum eru vandfundin og mikil þörf er á eflingu atvinnulífs strax.