Um stöðu COVID-19 bólusetninga á Suðurnesjum
Ágætu íbúar Suðurnesja.
Nú er verið að ljúka COVID-bólusetningum hjá framlínufólki á Suðurnesjum, auk skjólstæðinga heimahjúkrunar, dagdvala og sambýla.
Bóluefni er útdeilt miðlægt frá Embætti Landlæknis á allar heilsugæslustöðvar. Skjólstæðingar eru boðaðir strax og upplýsingar berast um komu þess á HSS en fyrirvarinn getur verið stuttur.
Áætlað er að bólusetning elstu árganganna á svæðinu hefjist 20. febrúar í samræmi við forgangshópa sem skilgreindir eru af sóttvarnarlækni.
HSS hefur afnot af húsnæði Landhelgisgæslunnar við Uppland á Ásbrú, þar sem afkastageta er um 200 bólusetningar á klukkustund.
Allir verða boðaðir með SMS-skilaboðum í farsíma. Ef einstaklingar eru ekki með farsíma verður haft samband í heimasíma eða á annan hátt. Ekki þarf snjallsíma til að fá skilaboð, nóg er að hafa venjulegan farsíma.
Einnig verða tímasetningar auglýstar á Facebook-síðu og heimasíðu okkar, www.hss.is
Við beinum tilmælum til ættingja þeirra sem þess þurfa og ekki eru tæknivæddir, að aðstoða þau við að fylgjast með skilaboðum og símum.
Bólusett er í axlarvöðva, í almennu rými og því æskilegt að fólk klæðist stuttermabol eða fatnaði sem auðveldar að komast að stungustað.
Að bólusetningu lokinni tekur við 15 mínútna biðtími í sal.
Ef fólk er með bráðaofnæmi, er ekki ráðlagt að fá bólusetningu að sinni.
Ef fólk ætlar EKKI að þiggja bólusetningu þá má vinsamlega sendið tölvupóst með nafni og kennitölu á [email protected] eða í gegnum samskiptamöguleikann á www.heilsuvera.is.
Við bólusetningarnar hefur HSS notið dyggrar aðstoðar starfsmanna Brunavarna Suðurnesja, Lögreglunnar, Landhelgisgæslunnar og Björgunarsveita á Suðurnesjum. Að auki hefur Isavia lánað ýmsan búnað.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kann þessum aðilum miklar þakkir fyrir aðstoðina í þessu stóra samfélagslega verkefni sem við Suðurnesjabúar njótum góðs af.
Með kveðju,
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.