Um hvað er kosið?
Kristján Jóhannsson skrifar.
Það er ljóst í skoðanakönnunum sem framkvæmdar hafa verið að íbúar Reykjanesbæjar vilja breytingar á stjórn bæjarins. Það heyrir maður líka í samtölum við fólk á förnum vegi, líka á samfélagsmiðlum. Fólk vill breytingar. Síðan er það spurning hvort sá vilji skili sér inn í kjörklefana.
Í 12 ár hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins farið með völd í bænum okkar. Þetta lítur allt saman vel út á yfirborðinu, bærinn hefur tekið miklum útlitsbreytingum. Stækkað, verið tekið til hendinni hér og þar. Það er allt saman gott og blessað.
Meirihlutinn lætur sem að hér sé allt í himnalagi og það væri óðs manns æði að fela einhverjum öðrum að fara með stjórn bæjarins. Allt að fara gerast í Helguvík. Störfin bíða og verksmiðjur í röðum. Það er látið í það skína að mánaðarlaun upp á 500-600 þúsund bíði allra þeirra sem vilja bara leyfa Sjálfstæðisflokknum að klára það sem þeir hafa talað um í bráðum 16 ár. Já, því verksmiðjur í Helguvík hafa verið á stefnuskránni hjá þeim frá því rétt eftir sameiningu bæjanna 1994.
Fyrst var það stálpípuverksmiðja, síðar álverksmiðjur og nú síðast kísilmálverksmiðjur og ekki ein heldur tvær. Ef einhver dirfist að hafa uppi efasemdir um allt þetta er viðkomandi umsvifalaust afgreiddur sem leiðindapúki og niðurrifsmaður. Nú er það hins vegar svo að það er enginn á móti atvinnuuppbyggingu í bænum sínum.
En þrátt fyrir að núverandi meirihluti láti eins og ekkert sé að í fjármálastjórn bæjarins og allt tal um skuldir og vandræði séu stormur í vatnsglasi hjá þeim þá er raunin önnur. Farið hefur verið í stórkostlega eignasölu til að halda rekstri uppi og þjónusta við íbúa er skert. Reykjanesbær stenst ekki samanburð við önnur sveitarfélög í þeim efnum. Allt er skreytt og betrumbætt og skuldir færðar á Hafnarsjóð og Helguvík svo bæjarsjóður líti betur út á pappírum.
Þrátt fyrir allar barbabrellurnar er bærinn á top 10 yfir þau sveitarfélög sem eiga í mestum vandræðum. Það breytir engu hversu margar greinar bæjarfulltrúar sjálfstæðimanna skrifa undir mismunandi nöfnum um fjarmálastjórn sína. Staðan er alltaf sú sama. Bærinn er skuldsettur upp í rjáfur og íbúum er ekki sama! Keisarinn er ekki í neinum fötum og það sjá það allir!
Þess vegna viljum við íbúar Reykjanesbæjar breytingar. Við viljum hleypa lýðræðinu að. Íbúar vilja að ákvarðanir sem snerta okkur öll séu teknar af fleirum en einum flokki sem ráðið hefur einn of lengi.
Íbúar Reykjanesbæjar vilja breytingar og geta náð þeim fram. Bein leið býður fram lista með fólki sem er tilbúið að takast á við vandann.
Við þurfum að forgangsraða og setja fólk í fyrsta sæti. Hlusta á sjónarmið, vera hugmyndarík og skapandi og umfram allt tilbúin að deila völdum með öðrum.
Ég vil hvetja alla þá sem enn eru ekki búnir að gera upp hug sinn, þá sem vilja breytingar á stjórn bæjarins að koma í heimsókn til okkar og kynna sér málefni Beinnar leiðar.
Alltaf heitt á könnunni.
Kristján Jóhannsson
í framboði fyrir Beina leið.