Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Um góða þjónustu
Þriðjudagur 22. júní 2004 kl. 19:08

Um góða þjónustu

Það verður ekki skafið af mér að ég get verið svolítill kjáni. Ég er utan við mig og gleyminn og með aðstoð þeirra eiginleika er ég duglegur að koma mér í kjánalegar aðstæður. Einu sinni sem oftar tókst mér það um daginn þegar ég keypti mér box af daglinsum í Gleraugnaverslun Keflavíkur. Í fyrstu var ekkert öðruvísi en venjulega. Ég hélt heim á leið með nýju linsurnar mínar og innan skamms var ég farinn að nota þær eins og venjulega. Þegar dagarnir liðu fór ég að hafa áhyggjur af versnandi sjón minni. Ég gat ekki lengur lesið auðveldlega á skilti og þekkti ekki andlit úr fjarska. Ég hef eflaust sært einhverja á þessu tímabili því ég þorði ekki að heilsa nema mér væri heilsað fyrst, enda hafði ég ekki hugmynd um hver nálgaðist. Ég lýsti áhyggjum mínum fyrir unnustu minni og sagðist ætla til augnlæknis á næstunni að láta mæla í mér sjónina.

Það var svo einn daginn þegar ég sat á salerninu, uppiskroppa með lesefni, að ég greip úr hillunni linsukassann minn og las utan á hann. Þegar ég hafði stautað mig í gegnum leiðbeiningar á fjórum tungumálum rak ég augun í það merkilegasta af öllu. Ég hafði fengið rangan styrkleika. Ég sat lengi og horfði á pakkann og leið vitaskuld eins og fábjána, enda hafði mér ekki hugkvæmst að það gæti verið ástæðan fyrir hrakandi sjón minni. Ég velti því fyrir mér í nokkra daga hvort ég ætti að skipta linsunum eða kaupa mér bara nýjar og úr varð að ég fór í Gleraugnaverslunina með linsurnar meðferðis. Ég þarf varla að útskýra hve bjánalega mér leið þegar ég rakti raunir mínar fyrir afgreiðslufólkinu en þau tóku þessu með dásamlegu jafnaðargeði. Báðust afsökunar á mistökunum og létu mig fá nýjar pakkningar án greiðslu og létu meira að segja fylgja prufulinsur af annarri tegund í kaupbæti.

Nú heilsa ég fólki úr fjarska og les á öll skilti sem ég sé í gleðivímu yfir því að hafa fengið sjónina aftur og yfir því að í Reykjanesbæ skulum við eiga svona skilningsríkt og hjálpfúst verslunarfólk.

Takk fyrir mig,
Styrmir Barkarson


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024