Tvöföldun Reykjanesbrautar - Leitum lausna á fjármögnun
Þakklæti til þeirra sem stigið hafa fram
Fjárfesting, viðhald og leit til betri lausna í vegagerð er eitt brýnasta málið sem við fáumst við í dag. Vegakerfið er æðakerfi landsins þar sem þjóðbrautir, stofnbrautir og hjáleiðir eru mikilvægt net í nútíma samgöngum sem eru einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja aðgengi að atvinnulífi, heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og allri menningu og mannlífi okkar.
Á undaförnum árum höfum við horft uppá vegakerfið grotna niður vegna fjárskorts og nú er svo komið að aðeins stórátak í viðhaldsframkvæmdum getur leyst brýnasta vandan í kerfinu. Nú þegar verður að leggja meira fé í viðhald vega og uppbyggingu vegakerfisins. Uppbyggingin og endurbæturnar verða að taka mið af því hvar umferðaþunginn er mestur í landinu. Engin önnur forgangsröðun er trúverðug en sú sem tekur mið af þunga umferðarinnar, flestum bílum, hættulegustu gatnamótum, einbreiðum brúm og öðrum hættum í vegakerfinu og mikilvægt að útrýma „svartblettum“ í vegakerfinu. Við verðum að fækka slysum með markvissum aðgerðum sem taka mið af þessum staðreyndum.
Í Suðurkjördæmi er af nógu að taka þegar að þessari forgangsröðun kemur og afar mikilvægt að þingmenn kjördæmisins standi saman í því að berjast fyrir vegakerfi sem er að komast í þrot. Samgönguáætlun 2015-2019 er til umræðu í þinginu og mikilvægt að við þingmenn stöndum vörð um hagsmuni okkar í þeirri umræðu. Það er ljóst að stórauka þarf fjármagn til Samgönguáætlunar ef það á að takast að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut.
Eitt af markmiðum með stofnun Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, KADECO var að efla samgöngur milli Ásbrúar og Reykjanesbæjar til að flýta fyrir þróun fyrrum varanarsvæðis. Ég ræddi við framkvæmdastjóra KADECO og fjármálaráðherra ekki alls fyrir löngu á fundi um að nú þegar verði tekin ákvörðun um að það fé sem fæst fyrir sölu síðustu eigna ríkisins á Ásbrú verði látið renna til skipulags og uppbyggingar á svæðinu. Brýnt er að sú ákvörðun liggi fyrir fljótlega. Ég legg til að nú þegar verði eyrnamerkt fé sem kemur úr sölu eigna á Ásbrú og það notað til að kosta tengingu við hringtorgið við Stekk frá Hafnarvegi og framkvæmda við hringtorgin við gatnamót Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar og hinsvegar við Aðalbraut og Reykjanesbrautar en það er í samræmi við þá hugsun að auðvelda samgöngur á milli hverfisins í Ásbrú við önnur hverfi Reykjanesbæjar og auka öryggi í umferðinni eins og hringtorgin við Grænás og Stekk hafa sannað gildi sitt sem góð og örugg samgöngumannvirki. Með samstilltu átaki þingmanna og góðum vilja er hægt að koma þessu í verk mjög fljótlega og hefði ekki áhrif á aðra þætti Samgönguáætlunar.
Ég vil þakka þeim sem stigið hafa fram og veitt forystu kröfum um uppbyggingu Reykjanesbrautar. Höfum jafnan í huga að bestur árangur næst með samstarfi þar sem virðing er borin fyrir fólki og hagsmunir heildarinnar hafðir að leiðarljósi, það skilar árangri.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður.