Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Fimmtudagur 18. maí 2000 kl. 16:39

Tvö stór baráttumál í höfn - segir Hjálmar Árnason

Brýnustu úrlausnarefni í samgöngumálum Suðurnesjamanna eru nú í höfn. Náðst hefur samkomulag um tvöföldun Reykjanesbrautar og lagningu Suðurstrandarvegar á vegaáætlun. Hjálmar Árnason, þingmaður og varaformaður samgöngunefndar alþingis segir langþráðu baráttumáli nú að ljúka. Með mikilli samstöðu heimamanna, sveitarstjórnarmanna og þingmanna kjördæmisins náðist að koma málunum áfram. Tvöföldun lokið 2005-7? Samkvæmt síðustu vegaáætlun átti að ljúka tvöföldun Brautarinnar árið 2010. „Í raun var það áfangasigur að ná málinu inn á áætlun. Við breytingar á vegaáætlun náðist um það samkomulag innan samgöngunefndar, meðal þingmanna kjördæmisins og ráðherra að flýta þeirri áætlun og stefna að lokum verksins eigi síðar en árið 2007. Staðan er sú að á þessu ári verður lokið við umhverfismat á vegastæðinu. Árið 2001 verður unnið að útboðsgögnum og stefnt að útboði árið 2002. Vegagerðin gerir ráð fyrir að verkið verði unnið í þremur áföngum. Byrjað verður í Kúagerði og unnið til Hafnarfjarðar. Annar áfangi nær frá Kúagerði að Vogaafleggjara og síðasti áfanginn er að Fitjum og stefnt að verklokum 2007“, segir Hjálmar. Með þessari niðurstöðu hefur tvöföldun Reykjanesbrautar verið tryggð. Jafnframt hefur verið opnað fyrir þá heimild að flýta verkinu. „Eftir viðræður við Samtök iðnaðarins, ýmsa verktaka (s.s. ÍAV) og fleiri tel ég alls ekki útilokað að verklok gætu orðið enn fyrr - jafnvel árið 2005/6 ef allt gengur eftir“. Ekki þarf að fara mörgum orðum um gildi tvöföldunar Brautarinnar fyrir landsmenn alla. Um er að ræða einn alræmdasta slysaveg landsins. Talið er að slysastuðull á brautinni muni lækka um allt að 70% með tvöföldun. Í raun þarf ekki að nefna fleiri rök þó vissulega séu þau til staðar. Suðurstrandavegur 2003/4? Hjálmar segir samkomulag hefa orðið um að verja fjármunum í Suðurstrandarveg. Um er að ræða 400 milljónir á árunum 2003-4. Til viðbótar þessu höfðu þingmenn Suðurlands sett til hliðar fé af sérstakri fjárveitingu. „Hér er um mikilvæga stefnumörkun að ræða þar sem Suðurstrandarvegurinn var ekki á vegaáætlun. Nú liggur fyrir að hann hefur verið festur í sessi og það sem meira er að útboð ætti að geta farið fram innan tveggja ára. Ekki er útilokað að landsmenn geti farið að njóta þessa mikilvæga vegar strax árið 2003/4“, segir Hjálmar. Flestir gera sér ugglaust grein fyrir gildi Suðurstrandarvegar. Með honum opnast nýjar víddir í ferðaþjónustu, atvinnusvæði milli Suðurnesja og Suðurlands eru styrkt, öryggissjónarmiða er gætt og fleira mætti nefna. „Með þessum tveimur málum má segja að tekist hafi að landa tveimur mikilvægustu baráttumálum í samgöngum Suðurnesja og landsmanna allra“, sagði þingmaðurinn að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024