Tryggjum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til framtíðar
Það ófermdarástand sem nú ríkir í málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er afleiðing stefnuleysis undafarinna 15 ára í heilbrigðismálum. Það þarf að stokka upp kerfið, það þarf nýja stefnu. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór vissi þetta og reyndi að leggja upp í kerfisbreytingu, en var kveðinn í kútinn vegna þess hversu illa hann stóð að málinu. Þetta var þó fyrsta alvöru tilraunin, frá því Sighvatur Björgvinsson var heilbrigisráðherra 1994.
Það vita allir sem til þekkja að HSS hefur ekki setið við sama borð og aðrar heilbrigðisstofnanir í fjárveitingum frá ríkinu, hver svo sem ber sök á því. Enn er skert þjónusta á dagskrá og lokanir yfirvofandi. Að heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, skipi vinnuhóp sem hefur það hlutverk að útfæra hugmynd um samhæfingu Landspítala og HSS er ekki lausn heldur bútasaumur. Björgvin G Sigurðsson alþingismaður heimsótti stofnunina í gær og telur afleitt að skurðstofum verði lokað í sumar og að starfsemi fæðingardeildar raskist. Hann vill afstýra því og mun ræða málið við heilbrigðisráðherra í vikunni, ,,sem sé mjög skilningsríkur í garð stofnunarinnar,” svo notuð séu orð Björgvins hér í VF.
Auðvitað eru allir heimamenn sammála um að standa verði vörð stafsemi HSS. Hvorki þeir né stjórnmálamenn hafa hins vegar borið gæfu til gera það á skilvirkan hátt. Að skipa nefnd eða fara bónleið til ráðherra er ekki skilvirk leið. Loforð stjórnmálamanna korter fyrir kosningar leiða ekki til lausna.. Það þarf að sækja að rótum vandans, kerfinu sjálfu. Það eru mikil auðæfi og færni innan HSS, mörg tækifæri til öflugrar heilbrigðisþjónustu á mörgum sviðum. Það þarf hins vegar nýja pólitík sem gerir okkur mögulegt að nýta þessi tækifæri á skilvirkan hátt. Fyrir þá pólitík vil ég standa.
Frumheilsugæslan verður að vera virk. Sjúklingar verða að hafa aðgang að lækni, heilsugæslulækni, sem þeir þekkja og geta treyst. Frumheilsugæslan er anddyrið að skilvirku heilbrigðiskerfi. Alþjóðaheilbrigðistofnunin (WHO) hefur komist að þessari niðurstöðu. Vinnulag heilsugæslulækna er mun ódýrari fyrsti kostur en sérfræðilæknisþjónusta. Öflug frumheilsugæsla er þess vegna skynsamleg. Í Evrópu eru menn að glíma við svipaðan vanda í heilbrigðiskerfinu. Ný kostnaðarsöm meðferðartækni, auknar kröfur almennings og væntingar fólks eru til þess fallnar að auka á þrýsting um meiri og betri þjónustu samtímis því sem opinber útgjöld eru undir aðhaldi eða miklum niðurskurði eins og við stöndum frammi fyrir. Þess vegna er spurningin um forgangsröðun aldrei mikilvægari. Í Hollandi komust menn að því að rétt væri að efla frumheilsugæsluna. Þar tóku menn slaginn við rándýrt sérfræðilæknakerfi og höfðu betur. Þar töldu menn ekki þörf fyrir fleiri en einn húðsjúkdómalækni, svo dæmi sé tekið, á hverja 100 þús. íbúa. Í Reykjavík eru þeir a.m.k. 10 með sjálftökurétt í tryggingakerfið, sogrör í ríkiskassann, ef svo má segja. Íslenska kerfið hefur bitnað á heilsugæslunni, heilbrigisstofnunum á landsbyggðinni eins og HSS.
Heilbrigðismál eru hluti af okkar samfélagsgerð, hluti af velferðarkerfinu í heild. Það þarf að endurskipuleggja þetta kerfi í heildarsamhengi þess raunveruleika sem við lifum í en ekki sem þröngt afmarkað sérsvið öðru óviðkomandi. Lykilatriði er að tryggja grunnþjónustu í heimabyggð, styrkja öryggisnetið. Það þarf að efla heilsugæsluna með pólitískri ákvörðun um samvinnu ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélög yfirtaka rekstur heilsugæslustöðvanna, í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.
Á grundvelli þekkingar minnar og reynslu úr heilbrigðiskerfinu, hérlendis og erlendis, mun ég setja málefni öruggrar heilbrigðisþjónustu á oddinn, nái ég því markmiði að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ég sækist eftir 1. sæti listans í opna netprófkjörinu sem hefst á morgun á www.samfylking.is
Skúli Thoroddsen Reykjanesbæ.