Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 14. nóvember 2002 kl. 09:32

„Treysti á samstöðuna í vor“

Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri úr Vogum á Vatnsleysuströnd náði fjórða sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi um liðna helgi. Jón kveðst vera eins sáttur og hægt er með niðurstöðuna.

Ef þú metur kjörfylgi Samfylkingarinnar úr þeim kjördæmum sem hið nýja kjördæmi er samsett úr, hvernig meturðu stöðuna? Nærðu inn á þing?

Það er mjög erfitt að meta það. Suðurnesin slitna út frá gamla Reykjaneskjördæmi, Höfn slitnar út úr gamla Austurlandskjördæmi og hvernig á þá að meta styrk Samfylkingarinnar út frá kjörfylgi í gömlu kjördæmunums? Þetta er í raun og veru nýtt kjördæmi, ný staða og það eru 10 þingmenn í nýju Suðurkjördæmi og að sjálfsögðu á Samfylkingin að eiga að minnsta kosti 4 þingmenn í þeim hópi.
Það verður því barist til að ná fjórða manni inn?

Já það er ekki spurning. Samfylkingin hlýtur að gera það.

Er þessi niðurstaða sigur fyrir þig?

Þetta er sigur fyrir mig ef litið er á úrslitin og hvernig úrslitin liggja. Niðurstaðan er að vísu vonbrigði fyrir Suðurnes að það sjáist ekki kandídat af Suðurnesjum í þremur efstu sætunum.

Hver er ástæðan fyrir því?

Ástæðan er fyrst og fremst sú að það eru tveir af Suðurlandi að bjóða sig fram í fyrsta sæti og þá náttúrulega skiptast atkvæðin á milli þeirra. Það þýðir það að sá sem ekki nær fyrsta sætinu, nær öðru sætinu út á það fylgi sem hann fékk í fyrsta sæti. Þar með eru tvö sæti farin og þau eru bæði eyrnamerkt Suðurlandi í þessu prófkjöri. Þriðja sætið er þá næst og þar er einn sterkur kandítat af Suðurlandi og við erum þrjú af Suðurnesjum. Dreifingin einfaldlega verður með þeim hætti að það dugir þessum eina sterka af Suðurlandinu til að ná sætinu. En það munar litlu að ég nái þriðja sætinu, einungis 77 atkvæðum. Þessi niðurstaða hlýtur að segja okkur á Suðurnesjum að líta í eigin barm og skoða það hvernig við stöndum að því að velja okkar fólk á lista.

Vantaði ekki alla samstöðu hér á Suðurnesjum?

Það sem kannski ruglar þessa niðurstöðu er að það er enginn Suðurnesjamaður að sækjast eftir fyrsta sæti. Þar af leiðandi eru tvö sæti af listanum farin til tveggja efstu frambjóðandanna. Ég treysti hinsvegar á samstöðu Suðurnesjamanna þegar kemur að kosningunum í vor.

Þannig að þú ert bara nokkuð ánægður með niðurstöðuna?

Ég er þokkalega ánægður fyrir mína hönd. Út úr þessu prófkjöri kemur það að af Suðurnesjakandídötum hafði ég mest fylgi. En eigi að síður vonbrigði fyrir Suðurnes að sjá ekki Suðurnesjamann í efstu sætum.

Hvernig er baráttan búin að vera?

Baráttan er búin að vera heiðarleg. Frambjóðendur fóru misjafnlega í þetta. Ég eyddi ekki einni krónu og það hefur aldrei hugnast mér að leggja mikla peninga í prófkjör. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu mig og studdu í prófkjörinu, án þeirra hefði þetta ekki farið eins vel.

Þannig að það er bara vinna framundan með Samfylkingunni?

Það liggur ljóst fyrir að Samfylkingin þarf að vinna fjögur sæti í kosningunum og það er bara verkefnið sem er framundan.

Þú ert bjartsýnn á að það takist?

Já ég er það, Samfylkingin hefur mikinn stuðning á Suðurnesjum og Suðurnes þurfa að halda styrk sínum inn á Alþingi , því trúi ég því að okkur muni takast að gera 4. sætið að þingsæti.. Ætla ekki allir alltaf að vinna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024