Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Töpum við á því að byggja upp samfélag?
Fimmtudagur 2. júní 2005 kl. 16:57

Töpum við á því að byggja upp samfélag?

Það er ánægjuefni að heyra frá Ólafi Thordersen bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar eftir hljóðlát þrjú ár  í bæjarmálaumræðunni. Hann hefur haft tök á að hafa áhrif á rekstur Reykjanesbæjar sem bæjarfulltrúi en valið að taka ekki þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað. Hann hefur kosið að sitja hjá og bíða færis. Enginn var á móti stofnun félags um fasteignir okkar, aðeins framsóknarmaðurinn sat hjá.

Nú nálgast kosningar og þá er hneykslast á að árlegur kostnaður við uppbygginguna sé umfram tekjur. Stærstu verkefni okkar eru unnin samkvæmt stefnuskrá sem lögð var fyrir bæjarstjórn 2002 og allir reikningar eru lagðir fram eftir fullgildum reikningsskilareglum. Allt tal um annað ber að líta á sem ódýrt áróðursbragð.

Ólafur hefur auðvitað val um að vinna með okkur að uppbyggingunni, sitja hjá eða gagnrýna kostnað við hana. Rök okkar sjálfstæðismanna  eru að þessi uppbygging skili auknum tekjum til sveitarfélagsins í framtíðinni. Það gefur nánast auga leið að hún þýðir kostnað umfram tekjur á meðan á henni stendur, hvort sem það kemur fram í rekstrarreikningi sem tap, eða sem auknar lántökur í efnahagsreikningi, Við erum afar ánægð með að þessi framtíðarsýn er skemmra undan en við töldum eðlilegt að gera ráð fyrir.

Þegar þetta er skrifað hafa verið samþykktar 308 nýjar íbúðir í Reykjanesbæ á þessu ári. Þeim fjölgar daglega. Íbúafjölgun er að taka kipp. Allt skilar þetta sér í auknum tekjum til sveitarfélagsins án þess að kostnaður aukist að sama skapi. Þetta hefur verið gert í Hafnarfirði (Samfylkingin) og Kópavogi (Sjálfstæðismenn og Framsókn) með ágætum árangri. Fyrst varð til kostnaður, sem minnihlutarnir ósköpuðust yfir, síðan komu tekjurnar. Þá þegja sömu menn gjarnan.

Ég fagna áhuga Ólafs á bæjarmálum og býð honum nú sem fyrr til samstarfs um þau.  Með bestu kveðjum, Árni Sigfússon

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024