Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tölum um ferðaþjónustuna á Suðurnesjum
Laugardagur 15. október 2016 kl. 06:00

Tölum um ferðaþjónustuna á Suðurnesjum

Umfang ferðaþjónustunnar á Reykjanesi er að mörgu leyti mjög sérstakt. Hvergi er fleiri ferðamenn að finna, enda eiga langflestir þeirra leið um alþjóðaflugvöllinn. Hvergi er jafn stórt hlutfall íbúa sem starfar við ferðaþjónustuna. Einn mest sótti ferðamannastaður landsins er staðsettur á Reykjanesi. Sá hópur ferðamanna sem sækir sveitarfélögin á Suðurnesjum heim sérstaklega til að njóta þar afþreyingar, upplifa bæjarlífið eða dvelja er þó aðeins brot af heildinni. Þeim fer samt fjölgandi, eins og sjá má af úrvali hótela afþreyingar og  fjölbreyttri flóru veitingastaða.

Það sem skiptir íbúa og fyrirtæki á Suðurnesjum mestu máli þegar kemur að ferðaþjónustunni sem atvinnugrein er velgengni hennar í heild sinni, hvernig henni vegnar um allt land. Neikvæð umræða vegna lélegra aðstæðna dregur atvinnugreinina niður. Vondir vegir, átroðningur á ferðamannastöðum og léleg salernisaðstaða við þjóðveginn stefnir uppgangi ferðaþjónustunnar í hættu.
Ferðamannastaðir og innviðir eru almannagæði sem heyra undir ríkisvaldið. Óverulegum fjármunum hefur verið varið til að mæta auknu álagi vegna ferðamanna. Sem dæmi má nefna að 60 ár eru síðan jafn lágt hlutfall af vergri landsframleiðslu fór til vegakerfisins. Þá hafa úrbætur á vinsælum ferðamannastöðum hafa tafist árum saman.


Þá er bara að ræða málið
Til að upplýsa stjórnmálamennina um stöðu ferðaþjónustunnar og eiga samtal við þá um aðgerðir, standa Samtök ferðaþjónustunnar fyrir fundi með oddvitum stjórnmálaflokkanna. Fundurinn í kjördæmi Suðurnesjamanna - Suðurkjördæmi - verður haldinn á Hótel Selfossi mánudaginn 17. október næstkomandi kl. 20. Allir eru velkomnir og einnig verður bein útsending frá fundinum á vefsíðu SAF og upptaka af honum verður sýnd á sjónvarpsstöðinni N4.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Nauðsynlegar aðgerðir
Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá ferðaþjónustunni og atvinnugreinin býr sig undir að taka við meira en tveimur milljónum ferðamanna á næsta ári miðað við áætlanir. Þessi aukning skapar álag sem þarf að bregðast við. Bæta þarf vegakerfið, fjölga bílastæðum, leggja göngustíga, fjölga salernum, auka öryggi, fjarlægja sorp og þar fram eftir götunum. Á sama tíma þarf að bæta skipulag og stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna, bæði innan svæða, milli landshluta og innan ársins. Ríkið hefur mörg þessara verkefni á sínum herðum meðan önnur liggja nær sveitarfélögunum. Þetta og margt fleira verður tekið fyrir á fundinum með oddvitum flokkanna. Stóra spurningin er þessi: ætla stjórnmálin að sitja hjá eða taka virkan þátt í að tryggja þau tækifæri sem í ferðaþjónustunni felast þannig að hún geti áfram verið þessi styrka stoð velmegunar í þjóðfélaginu.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar