Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Tökum það með trompi!
Þriðjudagur 17. október 2006 kl. 20:27

Tökum það með trompi!

Saman til nýrrar sóknar fyrir Suðurkjördæmi

„Það þarf að hrista upp í þessu, fá nýjan andblæ og ferskra vinda til að blása um í Suðurkjördæmi. Andblæ og vinda sem nýta má til sóknar fyrir byggð, mannlíf og atvinnulíf á svæðinu,” er inntak þess sem fjöldi fólks í Suðurkjördæmi hefur sagt við mig á undanförnum vikum í umræðum um væntanlegt prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Sækjum fram fyrir Suðurkjördæmi
Fjöldi áskorana hefur borist til mín, víðsvegar úr kjördæminu, á undanförnum vikum og mánuðum um að gefa kost á mér á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Áskoranir frá fólki sem þekkir til starfa minna og skoðana og veit að ég er tilbúinn til að fylgja eftir af krafti málum sem brenna á fólki hér. Fólki sem veit að ég mun fylgja eftir sannfæringu minni og skoðunum í samstarfi við fólkið sem hér býr til nýrrar sóknar fyrir Suðurland.
Ég hef ákveðið að taka þessari áskorun því ég tel mig hafa áhugann, viljann og getuna til að takast á við þetta verkefni og býð mig því fram í 3. – 5. sætið í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 11. nóvember nk.

Vestmannaeyjar, Selfoss, Hafnarfjörður
Ég er 46 ára, fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og hef búið þar lengst af að undanskildum þremur árum er ég bjó á Selfossi, í kjölfar elgossins í Eyjum 1973. Það má segja að ég standi nokkuð klofvega í kjördæmi. Með lögheimili í Eyjum en aðsetur bæði á Selfossi og í Vestmannaeyjumi, og starfa sem framvæmdastjóri í fyrirtækinu Atlas í Hafnarfirði.

Bættar samgöngur lykill framfara og þróunar
Fjöldi spennandi mála bíða úrlausnar í Suðurkjördæmi og það þarf mikla vinnu, kraft, þor og samstöðu til að ná árangri í þeim málum.
Samgöngur eru það mál sem alltaf brenna heitt, enda eru góðar samgöngur undirstaða eflingar byggðar og framfara. Reynslan af tvöföldun Reykjanesbrautar sýnir glöggt hversu mikilvægt framfaraspor þær framkvæmdir eru.
Suðurlandsvegur frá Reykjavík til Selfoss þarf á sömu meðhöndlun að halda. Þar er verkefni sem ganga þarf í að koma í framkvæmd strax.
Ljúka þarf byggingu Suðurstrandarvegar og beintengja þannig Reykjanesið við Suðurströndina. Suðurstrandarvegur mun opna tækifæri til eflingar atvinnulífs og byggðar.

Gæsluna til Keflavíkur
Vinna þarf markvisst að atvinnuuppbyggingu í Suðurkjördæmi og einnig að hlúa að þeim kraftmiklu fyrirtækjum sem fyrir eru. Horfa þarf til framtíðar með uppbyggingu á stóriðju í einhverri mynd og vinna fast og ákveðið að því verkefni.
Vinna á að staðsetningu ríkisstofnanna utan höfuðborgarinnar. Landhelgisgæsluna á að flytja á Suðurnesin. Hafnaraðstaða er til staðar og sjálfsagt að nýta þá aðstöðu sem til staðar er á Keflavíkurflugvelli fyrir Gæsluna, í auknum umsvifum og verkefnum hennar. Þau rök að stjórnstöðin verði að vera í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð eru haldlítil og spurning er hvort ekki má þá bara flytja samhæfingarmiðstöðina eins og hún leggur sig á Keflavíkurflugvöll.
Efla þarf Heilbrigðisstofnanir og tryggja fjármagn til eðlilegrar þróunar þeirra. Skoða á möguleika á sérhæfingu sjúkrahúsa utan höfuðborgarinnar  til ákveðinna verkefna  sem skapað gætu aukin tækifæra til sóknar og uppbyggingar.

Ég er klár í slaginn
Með krafti, baráttu, þrautseigju, samvinnu og samstöðu er hægt að ná miklum árangri til framtíðar. Til hagsbóta fyrir okkur öll. Ég býð mig fram til að vinna af krafti og dug að öllum þeim verkefnum sem bíða, til hagsbóta fyrir íbúa kjördæmisins. Ég er tilbúinn að vinna með fólkinu sem hér býr og fyrir fólkið sem hér býr. Ég er klár í slaginn og vona að þið viljið slást í hópinn og styðja mig til árangurs. Tökum það nú með trompi!


Grímur Gíslason
 



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024