Tökum ákvörðun á réttum forsendum
Ég er borinn og barnfæddur Keflvíkingur og er nýlega fluttur heim aftur eftir langa fjarveru. Ein helsta ástæðan fyrir að mig langaði að flytja heim aftur er sú jávæðni sem hefur ríkt í sveitarfélaginu undanfarin ár og sú gríðarlega uppbygging sem hefur átt sér stað.
Mér finnst það því leiðinlegt þegar neikvæðnisraddir verða jafnháværar og raun ber vitni nú fyrir kosningar. Í mínum huga á kosningabarátta að snúast um framtíðarsýn og uppbyggingu.
En auðvitað eru ekki allir á þeirri skoðun og horfa eilíflega á dökku hliðarnar. Það er gott og gilt ef menn nota staðreyndir og fara með rétt mál. Uppbyggileg gagnrýni er til góðs, en þegar menn eru farnir að fara frjálslega með staðreyndir og fabrikera tölur dæmir það sig sjálft.
Við sem höfum rekstrar- og viðskiptamenntum eigum gott með að sjá í gegn um rangfærslurnar, jafnvel þótt engir útreikningar séu birtir. En mér er spurn hvort fólkið sem heldur slíku fram, fólk sem ætti að hafa menntun og þekkingu til að vita betur, fer vísvitandi með rangt mál eða hefur ekki kynnt sér málin.
Gott dæmi er umræðan um fasteignir Reykjanesbæjar og hvernig leigukostnaður er yfirfærður á einbýlishús. Meðfylgjandi mynd er af heimasíðu A-listans. Tilgreint er að greiða þurfi fasteignagjöld, en allir vita að skólar og flestar aðrar opinberar byggingar eru undanþegnar fasteignagjöldum! Ef Fasteign hf. greiðir einhver fasteignagjöld renna þau að sjálfsögðu beint til sveitarfélagsins. Svona blekkingar geta varla talist heiðarlegar og dæma sig sjálfar.
Árni Sigfússon hefur traust bæjarbúa og honum einum treysti ég til að leiða Reykjanesbæ næstu fjögur árin.
Brynjólfur Ægir Sævarsson
höfundur er íbúi í Reykjanesbæ og lánasérfræðingur í banka