Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tóku til hendinni
Miðvikudagur 12. maí 2010 kl. 11:32

Tóku til hendinni

Samfylkingarfólk í Reykjanesbæ á hrós skilið fyrir að gera sér glaðan dag í tilefni 10 ára afmælis flokksins og beina kröftum sínum í þágu umhverfisverkefnis og hreinsa upp rusl á Fitjum. Undanfarin ár hefur Blái herinn farið óbeðinn um Fitjarnar og hreinsað rusl og hafa þetta verið svona eitt tonn á hverju ári af rusli. Stundum hefur þetta svæði verið fjáröflunar verkefni einhvers íþróttafélags sem Blái herinn hefur svo stutt úr sínum umhverfissjóði með þakklæti fyrir vel unnið starf. Raunar hefur Blái herinn ekki gert neitt annað en að hreinsa upp rusl í mörg ár, þar skiptir engu máli hvernig ruslið er á litinn, þetta er okkar allra og ábyrgðin er okkar allra.


Ef allir flokkar sem taka þátt í sveitarstjórnarkosningum tækju sig saman og tækju sér svæði í fóstur og hreinsuðu væru það mjög skýr skilaboð til kjósenda. Jafnvel kjósendur gætu hugsað sér að gera slíkt hið sama, hver veit!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sem Sjálfstæðismaður hef ég aldrei farið í grafgötur með það að ruslið er mjög dýrmætt hráefni. Það má gera eftirfarandi við það en kannski ekki í þessari röð.

1. Því má henda útí náttúruna og þá þarf að þrífa það upp með ærnum kostnaði ef það er fólki að skapi.

2. Því má kasta í hafið og menga lífríkið sem þar er og þá fáum við lélegra hráefni að landi.

3. Því má keyra út í móa og losa sig við það þar vegna þess að það kostar peninga að losna við það.

4. Því má kasta út úr bílum á sjoppuplönum og annarsstaðar svo það fái notið þess að rúnta aðeins um bæinn sinn.

5. Það má nota ruslið til þess að auglýsa hversu vel við göngum um umhverfið okkar og sýna það hverjum sem vill hversu umhverfisvæn við erum í umgengni okkar við Móður Jörð.



Blái herinn hefur virkjað fleiri hundruð manns til starfa fyrir umhverfið okkar á undaförnum árum til þess að ofantalin atriði þurfi ekki að vera eins og það því miður er.


Ruslið okkar er þverpólitíst hráefni sem við eigum að nýta mun betur til að bæta okkar eigin vellíðan sem og líðan hjá Móður Jörð. Sjálfur er ég hrifnari að þessari röð.

1. Hættum að henda rusli og endurvinnum allt.

2. Hættum að hugsa þannig að lengi geti jörðin tekið við draslinu okkar útí náttúrunni.

3. Þrífum landið okkar og sköpum atvinnu,fallegra umhverfi,betri vellíðan og bættari ímynd.

4. Hættum að miða okkur við aðra og breytum um farveg í umhverfivitund okkar og gerumst 100% sjálfbær.

5. Besta ímynd sem við getum fengið fyrir okkur er sú að ekki þurfi heilan her manns til að þrífa upp eftir okkur ruslið og draslið sem við þurfum að losa okkur við. Hérna á Reykjanesskaganum er fullkomin endurvinnslustöð sem heitir Kalka og sárvantar hráefni til endurvinnslu.


Að lokum langar okkur hjá Bláa hernum að þakka öllum sveitarfélögum á Reykjanesi fyrir þá viðleitni sem þau hafa sýnt með öflugri hvatningu hreinsunarverkefna á sínum svæðum. Þar er Reykjanesbær til sóma.


Blái herinn hefur hreinsað hart nær 700 tonn af rusli úr náttúrunni á Reykjanesi og því miður nóg eftir.


Virðingarfyllst
Tómas J. Knútsson formaður Bláa hersins