Tóku ekki rétt af neinum
„Tóku ekki rétt af nokkrum manni“ er yfirskrift fréttar um svar Árna Páls við nýföllnum dómi um gengislánin og segir jafnframt að þannig hafi fjármálastofnanir líka skilið dóm Hæstaréttar um ólögmæti gengislána. Með dómnum var staðfest í annað sinn á einu ári að óheimilt er að reikna vextina aftur í tímann. Ekki bara tóku Árna Páls -lögin af okkur lántakendum lögvarinn rétt okkar heldur fetaði Seðlabankinn dyggilega á eftir og gaf frekari veiðileyfi á okkur lánagreiðendur. Enn eru lánveitendur okkar að hunsa dóm síðan í vetur. Enn eru þeir að brjóta á rétti okkar.
Í dag er svo komið að það virðast gilda önnur lög um fjármálafyrirtæki hvað varða fullnunustu dóma en okkur almenning. Ef ég eða þú fengjum á okkur dóm þýddi lítið að svara á þá leið að við ætluðum að bíða eftir fleiri samsvarandi dómum áður en við teldum okkur geta tekið mark á dómnum. En það furðulega gerðist í vetur. Fjármálafyrirtækin tilkynntu að þau ætluðu að taka sér frest til að skoða málin og það þyrftu fleiri mál áður en ákvörðun yrði tekin. Ekki nóg með það, það þurfti að fara í prófmál. Þrettán mál voru valin og til að bíta höfuðið af skömminni fengu þessar stofnanir að handvelja sjálfar hvaða mál væru tekin fyrir.
Í mínum huga var og er brotið gróflega á okkur . Allt í einu giltu engar greiðslukvittanir lengur. Lán voru tekin og endurreiknuð aftur í tímann til 2005 og þrátt fyrir að við værum búin að borga skilvíslega hvern einasta gjalddaga fengum við bakreikning. Ekki tekin af okkur neinn réttur... Gott fyrir fólk sem annars hefði þurft að bíða eftir leiðréttingu. Sér er nú hver leiðréttinginn.
Ef það hefði verið staðið almennilega að þessu í upphafi værum við ekki enn að bíða eftir geðþóttaákvörðunum fjármálastofnana. Ég ætti kannski bílinn minn. Þú ættir kannski þinn bíl, þitt hús og þitt fyrirtæki. Við erum enn að bíða. Fólk er enn að missa eignir sínar. Fólk situr en í yfirveðsettum eignum og það sem verra er fólk er búið að missa vonina. Fjölskyldur hafa sundrast. Það er viðvarandi fólksflótti úr landi. Skaðinn sem allt þetta hefur valdið verður aldrei metin til fjár. Hvernig á að endur reikna allan þennan skaða. Verður hann reiknaður aftur í tímann ?
Það er ótrúlegt að lesa þessa setningu : „Tóku ekki rétt af neinum“. Ég hefði skilið hana ef hún hefði hljóðað eitthvað á þessa leið: Tók ekki rétt af neinni fjármálastofnun. Við þurfum og eigum rétt á svörum strax. Við höfum aldrei fengið eða getað tekið okkur túlkunarrétt á hvort við stöndum við gerða samninga. Við eigum öll að standa jöfn fyrir lögum.
Pálmey Gísladóttir
Varaformaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar