Tími til að segja satt
Það er kominn mikill titringur í sjálfstæðismenn þessa síðustu daga fyrir kosningar og sést það best á því hvernig þeir geysast fram á ritvöllinn hver á eftir öðrum en verst þykir mér hvað bæjarstjórinn er farinn að leggjast lágt með ósannindum sem hann ber á borð fyrir íbúa.
Árni enn óviss um skuldir bæjarins
Í útvarpsþætti á RÚV um þar síðustu helgi hélt hann því fram að sjálfstæðismenn hefðu greitt niður skuldir að fjárhæð 1.300 milljóna króna. Þegar ég benti honum á að rétt tala væri 785 milljónir króna þakkaði hann mér fyrir ábendinguna mátti og skilja að þarna hefði bæjarstjórinn bara veriðað mismæla sig. En svo virðist ekki vera því hann hefur nú í viðtali á vef VF og í viðtali í Víkurfréttum haldið þessum ósannindum á lofti. Skuldir sveitarfélagsins lækka ekki við það eitt að segja nógu oft að búið sé að greiða þær upp.
Þá kemur einnig fram í sömu grein og kom einnig fram hjá bæjarstjóra á NFS að fyrrverandi fjármálastjóri hefði ekki haft neinar athugasemdir við þann ráðahag meirihluta sjálfstæðismanna að selja eignir sveitarfélagsins. Nú hefur komið fram að þar er bæjarstjóri að fara með rangt mál, eins og fram kemur í grein á vef VF fyrr í dag.
Embættismönnum kennt um
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bæjarstjórinn bregður á það ráð að hvítþvo sjálfan sig og benda á embættismenn sína. Það muna flestir eftir því þegar Sjálfstæðisflokkurinn með bæjarstjórann í broddi fylkingar ákvað að skerða framlag til barna hjá dagmæðrum. Þegar svo foreldrar og dagmæður mótmæltu kröftuglega setti bæjarstjórinn upp sakleysissvip og sagði embættismenn Félagsmáladeildar hafa lagt þessa tillögu fram, svo vitnað sé í fréttablað Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ Tíðindin, í janúar 2005.
Sannleikanum hagrætt eftir því sem hentar
Að lokum kom bæjarstjóri inn á það í ofangreindri grein sinni að mesta fjölgun í stærstu sveitarfélögum síðustu tvö ár hefði verið í Reykjanesbæ. Ef við skoðum meðfylgjandi töflu sem unnin er úr gögnum af vef Hagstofu Íslands kemur í ljós að það eru önnur sveitarfélög sem bera af í fólksfjölgun og það er ekki Reykjanesbær og jafnvel Kópavogur er með meiri fjölgun en hjá Reykjanesbæ. Það er mér hulin ráðgáta af hverju bæjarstjóri fer með rangt mál þegar kemur að fólksfjölgun.
Að lokum er svar bæjarstjórans á vef VF við MPA skýrslu sem birtist í Fréttablaðinu í upphafi viku. Þar er bæjarstjóri enn að segja ósatt með niðurgreiðslu skulda – þær eru ekki 1.300 milljónir heldur 785 milljónir eins margoft hefur komið fram. Bæjarstjórinn færir engin rök fyrir sínu máli og hnykkir svo út með að segja að það verði að taka eignir Hitaveitunnar með í útreikninginn. Hitaveitan á ekki heima í A-hlutanum, en það eiga leiguskuldbindingarnar aftur á móti. Enn og aftur er bæjarstjórinn í hlutverki sjónhverfingarmannsins, vísvitandi að blekkja bæjarbúa.
Það virðist sem sjálfstæðimenn telji það ekkert tiltökumál að hagræða sannleikanum ef það er það sem til þarf og þeir virðast vera búnir að gleyma því að – Sannleikurinn er sagna bestur. Geta íbúar treyst því að annað sem Sjálfstæðimenn segja sé satt – það þarf nefnilega meiri kjark að setja satt en ósatt.
Guðbrandur Einarsson Oddviti A-listans í Reykjanesbæ